Fótbolti

Benítez ánægður með varnarleikinn á undirbúningstímabilinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Benítez er ánægður með frammistöðu Real Madrid á undirbúningstímabilinu.
Benítez er ánægður með frammistöðu Real Madrid á undirbúningstímabilinu. vísir/getty
Rafa Benítez, knattspyrnustjóri Real Madrid, er ánægður með framfarirnar sem spænska liðið hefur sýnt á undirbúningstímabilinu.

Benítez hefur lagt sérstaka áherslu á að bæta varnarleik Real Madrid og segir liðið sé komið vel á veg í þeim efnum.

„Undirbúningstímabilið hefur verið mjög jákvætt. Ég vil hrósa leikmönnunum fyrir viðhorf þeirra og góða frammistöðu,“ sagði Benítez sem tók við Real Madrid af Carlo Ancelotti í sumar.

„Við vitum hvaða sóknarhæfileikar búa í liðinu en ég hef lagt áherslu á varnarleik liðsins. Það er mikið verk óunnið en við höfum haldið hreinu og gefið fá færi á okkur sem er jákvætt,“ bætti Benítez við en Real Madrid hefur aðeins fengið á sig eitt mark í fjórum leikjum á undirbúningstímabilinu.

Benítez er einnig ánægður með það sem hann hefur séð til Gareth Bale í nýrri stöðu en Walesverjinn hefur verið notaður sem fremsti miðjumaður í nokkrum leikjum í sumar.

„Hann hefur verið mjög góður í þessari stöðu, þótt það skipti einnig máli hvernig liðið spilar sem heild. Hann gefur okkur mikinn kraft í sókninni,“ sagði Benítez sem stýrði Napoli um tveggja ára skeið áður en hann tók við Real Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×