Fótbolti

Benitez: Ekkert ósætti við Ronaldo

Eiríkur Stefán Ásgeirssopn skrifar
Rafael Benitez.
Rafael Benitez. Vísir/Getty
Rafael Benitez, stjóri Real Madrid, segir ekkert hæft í þeim sögusögnum að samband sitt við Cristiano Ronaldo sé slæmt en fjölmiðlar á Spáni hafa fullyrt að þeir eigi varla samskipti.

Real steinlá fyrir Barcelona á heimavelli um helgina en á mánudag lýsti Florentino Perez, forseti Real Madrid, yfir stuðningi við Benitez sem var sagður afar valtur í sessi eftir tapið um helgina.

Sjá einnig: Benitez öruggur hjá Real Madrid í bili

Benitez tók upp þráðinn á blaðamannafundi fyrir leik Real Madrid gegn Shakhtar Donetsk í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

„Við stöndum saman,“ sagði hann. „Ég er þakklátur stjórninni og forsetanum fyrir stuðninginn. Við höfum rætt um mistökin sem við höfum gert og ég tek fyrst og fremst ábyrgð á þeim.“

Real Madrid hefur nú tapað tveimur leikjum í röð í deildinni heima en Benitez segir að þeir megi ekki hafa áhrif á framhaldið. „Það er aldrei hægt að lofa sigri í fótbolta en það er hægt að lofa því að menn leggi sig fram.“

Hann segir enginn vafi á því að hann njóti stuðnings leikmanna sinna. „Annars hefðum við ekki leikið fjórtán leiki í röð án þess að tapa og komist áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar þegar tvær umferðir voru eftir af riðlakeppninni.“

Benitez segir ekkert hæft í því að samskipti hans við Ronaldo séu slæm. „Algjörlega ekki. Cristiano er frábær leikmaður og skiptir sköpum fyrir okkur.“


Tengdar fréttir

Zidane: Ég er ekki tilbúinn

Þrálátur orðrómur hefur verið á sveimi um að dagar Rafa Benitez hjá Real Madrid eru taldir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×