Fótbolti

Bendtner skipað að mæta á einkaæfingar

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Bendtner í æfingarleik á dögunum.
Bendtner í æfingarleik á dögunum. Vísir/Getty
Nicklas Bendtner, leikmanni Wolfsburg, hefur verið skipað að æfa upp á eigin spýtur þessa vikuna eftir að hafa verið tekinn af velli í hálfleik í æfingarleik liðsins gegn Ajax á dögunum.

Bendtner sem hefur gengið illa að fóta sig undanfarin ár gekk til liðs við Wolfsburg á síðasta ári eftir níu ár í herbúðum Arsenal. Lék hann 18 leiki fyrir þýska félagið en skoraði aðeins eitt mark og féll hann algerlega í skugga hollenska framherjans Bas Dost.

Bendtner er þó ekki búinn að gefa það upp á bátinn að slá í gegn í þýska boltanum og sagðist hann á dögunum vera sannfærður um að hann muni vinna sér inn sæti í byrjunarliðinu. Þjálfari liðsins vill þó sjá meira frá Dananum stóra og stæðilega.

„Við gerum kröfur til leikmanna okkar og hann stóð ekki undir þeim í Amsterdam. Hann var sá eini sem stóðst ekki kröfur okkar í þessum leik. Ég er viss um að hann geti hjálpað okkur en ég er ekki viss hvort hann viti hvernig,“ sagði Dieter Hecking, knattspyrnustjóri Wolfsburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×