Matur

Belgískur afmælisborgari Roadhouse

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Afmælisborgarinn er af dýrari gerðinni.
Afmælisborgarinn er af dýrari gerðinni. mynd/roadhouse og vísir/stefán
„Það er fáheyrt að veitingastaður nái þremur árum á sömu kennitölunni,“ segir Sigurður Karl Guðgeirsson kenndur við Roadhouse. Veitingastaðurinn verður þriggja ára á mánudaginn og býður upp á sérstakan afmælishamborgara af því tilefni.

Sá er af dýrari gerðinni en fyrst var greint frá kræsingunni á Nútímanum.. Hann er tvöfaldur með sultuðum rauðlauk, beikoni og Roadhousemajonesi. Að auki prýða hann tvær gerðir osta, Maribo og Tindur. Rúsínan í pylsuendanum eru síðan belgísku vöfflurnar tvær sem koma í staðinn fyrir brauðið, toppaðar með hlynssýrópi og flórsykri.

„Ég smakkaði hann í gær og okkur virðist hafa tekist frábærlega til með hann. Þegar þú setur svona mikið af allskonar á hann þá er alltaf hætta á því að hann verði væminn en þetta virðist vera fullkomin blanda.“

Roadhouse hefur oft fetað ótroðnar slóðir með hamborgunum sínum. Á matseðlinum má meðal annars finna kleinuhringjaborgara sem er í raun bröns hrúgað saman í eina máltíð. Á tyllidögum hefur verið boðið upp á cronut borgarann sem er með crossant kleinuhringjum í stað brauðsins og beikoni, sultuðum rauðlauk, sýrópi og fleiri kræsingum.

„Þetta er í raun stóri bróðir cronutsins. Ég veit ekki hvað þetta eru margar kalóríur og ég vil ekki vita það. Ég er að velta því fyrir mér hvort við þurfum að vera með hjartastuðtæki á staðnum á meðan afmælisborgarinn er í boði,“ segir Sigurður og hlær.

„Cronut-inn kemur svo aftur á matseðilinn í vor. Það er ekki hægt að vera með tvo spes borgara í einu, eldhúsið færi hreinlega á hliðina.“


Tengdar fréttir

Tók 11 daga að ná frönskunum góðum

„Við erum að taka þennan mat og gera hann með hjartanu,“ segir Sigurður Karl Guðgeirsson, einn af eigendum veitingastaðarins Roadhouse, sem opnar við Snorrabraut í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×