Erlent

Belgísk stjórnvöld ná samkomulagi við Vallóna

Atli ísleifsson skrifar
Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu, og utanríkisráðherrann Didier Reynders.
Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu, og utanríkisráðherrann Didier Reynders. Vísir/AFP
Belgísk stjórnvöld hafa náð samkomulagi við héraðsstjórnir í Vallóníu til að leysa megi þá pattstöðu sem komin er upp varðandi samþykkt fríverslunarsamnings ESB og Kanada. Reuters greinir frá.

Vallónar settu sig upp á móti undirritun samningsins vegna ákvæða sem snúa að umhverfismálum, landbúnaðar, atvinnu- og neytendamálum. Þetta leiddi til að Belgar gátu ekki samþykkt samninginn og þar með ekki ESB heldur.

Til stóð að undirrita samninginn í dag, en vegna þeirrar stöðu sem kom upp frestaði Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, för sinni til Brussel.

Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu, greindi frá því í dag að ríkisstjórn Belgíu og héraðsstjórnirnar hefðu sammælst um sameiginlegan texta um þá þætti varðandi innflutning á landbúnaðarvörum og fleira í samningnum sem Vallónar höfðu sett sig upp á móti.

Önnur aðildarríki ESB þurfa að samþykkja hverja þá fyrirvara sem belgísk stjórnvöld gera varðandi fríverslunarsamningurinn áður en hann verður undirritaður.


Tengdar fréttir

Fundi fulltrúa ESB og Kanada frestað

Enn hefur ekki tekist að semja við héraðsstjórnir í belgísku Vallóníu um fyrirhugaðan fríverslunarsamning ESB og Kanada.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×