Erlent

Belgar minnast fórnarlamba hryðjuverkanna í Brussel

Atli Ísleifsson skrifar
Filippus Belgíukonungur á minningarathöfn nærri Maelbeek-stöðinni í morgun.
Filippus Belgíukonungur á minningarathöfn nærri Maelbeek-stöðinni í morgun. Vísir/afp
Belgar minnast þess í dag að ár er liðið frá hryðjuverkaárásunum í Brussel þar sem þrír hryðjuverkamenn gerðu sprengjuárásir á flugvelli og í neðanjarðarlestakerfi borgarinnar.

„Þið hafið svarað hatrinu og þjáningunni með kærleik“, sagði Filippus Belgíukonungur í morgun.

Fyrsta minningarstundin var haldin á Zaventem-flugvelli í morgun þar sem tveir menn sprengdu sjálfa sig í loft upp í innritunarsal flugvallarins að morgni 22. mars í fyrra. Þar létu sautján manns lífið.

Nöfn fórnarlambanna voru lesin upp og var mínútu þögn klukkan 7:58 að staðartíma, á sama tíma og mennirnir sprengdu sjálfa sig í loft upp fyrir ári. Filippus konungur og Matthildur drottning voru bæði viðstödd minningarathöfnina.

Minnisvarði til heiðurs fórnarlömbum árásarinnar var svo afhjúpaður í almenningsgarði nærri flugvellinum.

Um níuleytið var svo haldin minningarathöfn á neðanjarðarlestarstöðinni Maelbeek í Brussel þar sem önnur árás var gerð síðar um morguninn í fyrra þar sem sextán manns létu lífið.

Konungshjónin tóku einnig þátt í þeirri athöfn og ferðuðust þangað með neðanjarðarlest, líkt og fjöldi ráðherra og þingmanna. Aðstandendur fórnarlamba héldu þar ræðu og í stað mínútu þagnar var klappað í eina mínútu til minningar um fórnarlömb árásarinnar.

Um hádegisbil hélt svo konungurinn ræðu á Schumann-hringtorginu í hjarta hverfisins þar sem allar helstu byggingar Evrópusambandsins er að finna, nærri Maelbeek-stöðinni.

Fjöldi viðburða eru fyrirhugaðir í allan dag til að minnast fórnarlamba árásanna. Alls létu 35 manns lífið í hryðjuverkaárásunum í Brussel, þar af þrír árásarmenn. Um þrjú hundruð manns særðust.

Fjöldi grunaðra hryðjuverkamanna var handtekinn eftir árásirnar, nokkrir þeirra einnig grunaðir um aðild að árásunum í París nokkrum mánuðum fyrr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×