Erlent

Beinir spjótum sínum að smyglbátum í Miðjarðarhafi

Atli Ísleifsson skrifar
Angela Merkel Þýskalandskanslari og Francois Hollande Frakklandsforseti halda sameiginlega ræðu í Evrópuþinginu í Strasbourg síðar í dag.
Angela Merkel Þýskalandskanslari og Francois Hollande Frakklandsforseti halda sameiginlega ræðu í Evrópuþinginu í Strasbourg síðar í dag. Vísir/AFP
Evrópusambandið hefur hleypt af stokkunum nýrri aðgerð í Miðjarðarhafi sem miðar að því að stöðva siglingar báta þar sem reynt er að smygla fólki yfir til Evrópu.

Aðgerðin gengur undir nafninu Sophia, en samkvæmt nýjum reglum verður áhafnarmeðlimum gæslubáta á vegum sambandsins heimilt að fara um borð og leita í bátum sem grunur leikur á að séu notaðir til slíkra flutninga, auk þess að vísa þeim aftur til hafnar í Norður-Afríku.

Í frétt BBC kemur fram að ESB hafi til þessa einblínt á eftirlit og björgunaraðgerðir í Miðjarðarhafi.

Rúmlega 130 þúsund flóttamenn hafa komist sjóleiðina til Evrópu um Miðjarðarhaf frá norðurströnd Afríku það sem af er ári. Rúmlega 2.700 manns hafa drukknað á leiðinni.

Búist er við að málefni flóttafólks verði til umræðu þegar Angela Merkel Þýskalandskanslari og Francois Hollande Frakklandsforseti halda sameiginlega ræðu í Evrópuþinginu í Strasbourg síðar í dag.

Til undantekninga heyrir að sameiginlegar ræður sem þessi eru fluttar í Evrópuþinginu. Síðast sem slík ræða var haldin var árið 1989 þegar Francois Mitterrand Frakklandsforseti og Helmut Kohl, kanslari Vestur-Þýskalands, tóku til máls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×