Innlent

Beingreiðslur til bænda án eftirlits um fjölda áa

Sveinn Arnarsson skrifar
Miklu fé er varið árlega í íslenska sauðfjárrækt. 2.5 milljarðar króna renna til bænda fyrir það eitt að halda sauðfé árlega.
Miklu fé er varið árlega í íslenska sauðfjárrækt. 2.5 milljarðar króna renna til bænda fyrir það eitt að halda sauðfé árlega. vísir/valli
Sauðfjárbændur þurfa einungis að hafa 70 prósent sauðfjár á vetrarfóðrum til að fá fullar beingreiðslur fyrir þau ærgildi sem þeir eiga. Ekkert eftirlit er með því hvort bændur gefi upp rétta tölu sauðfjár hjá sér.

Sauðfjárræktandi með 500 ærgildi þarf því aðeins að hafa 350 kindur á vetrarfóðrum til að fá að fullu greitt fyrir þau ærgildi sem hann á. Ríkið greiðir sauðfjárbændum um 2,5 milljarða árlega fyrir að halda sauðfé.

Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðarráðherra
Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra undirritaði reglugerð þess efnis í vikunni og er hlutfallið óbreytt á milli ára. Hann segir hlutfallið hafa haldist óbreytt milli ára.

„Ástæða þess að engin breyting er núna á ásetningarhlutfallinu er að það er ekki skortur á kjöti. Við hækkuðum hlutfallið fyrir nokkrum árum þegar leit út fyrir skort á lambakjöti. Hins vegar er það ekki raunin í ár og því ákváðum við að halda þessu óbreyttu,“ segir Sigurður Ingi.

Samkvæmt lögum um búfjárhald eiga allir sauðfjárbændur að vera búnir að senda skýrslu um fjölda sauðfjár á fæti hjá sér fyrir 20. nóvember. Matvælastofnun er skylt að fara í eftirlitsferðir til þeirra sem ekki skila inn skýrslu til að telja sauðfé á kostnað bænda.

Sverrir Sverrisson, sérfræðingur hjá Matvælastofnun
Matvælastofnun er jafnframt heimilt að fara í skoðun til sauðfjárbænda til að sannreyna upplýsingagjöf þeirra. Matvælastofnun hefur aldrei frá því ný lög um búfjárhald tóku gildi árið 2013 farið í þessar eftirlitsferðir og treyst bændum fyrir þessu.

Milljarðar króna renna til sauðfjárbænda árlega í formi beingreiðslna án þess að eftirlit sé með því hvort bændur gefi upp rétta tölu sauðfjár hjá sér.

Sverrir Þ. Sverrisson, sérfræðingur hjá Matvælastofnun, segir stofnunina fara í fjölda eftirlitsferða á hverju ári.

„Hins vegar höfum við ekki farið í ferðir til þeirra sem eru búnir að skila inn búfjárskýrslu til að sannreyna upplýsingar þeirra. Við höfum meira verið í því að eltast við bændur sem ekki skila inn búfjárskýrslum,“ segir Sverrir. „Ef grunur leikur á að menn séu ekki að fara rétt með í búfjárskýrslum þá skoðum við vissulega slík mál.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×