Lífið

Bein útsending: Milljarður rís og minnist Birnu í Hörpu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá Milljarður Rís
Frá Milljarður Rís Harpa
Dansbyltingin Milljarður Rís fer fram í Hörpu í dag og verður í beinni sjónvarpsútsendingu á Vísi. Hátíðin stendur yfir á milli klukkan 12-13 og er í boði UN Women á Íslandi og Sónar Reykjavík.

Útsendinguna má sjá í spilaranum hér að ofan þegar hún hefst skömmu fyrir hádegi.

Reiknað er með að nokkur þúsund Íslendingar og gestir stígi trylltan dans úti um allt land til að mótmæla ofbeldi gegn konum um allan heim. Um er að ræða alheimsdansbyltinguna Milljarður Rís en reikna má með því að fjölmennast verði hér á landi í Hörpu.

Aðsóknarmet var slegið í fyrra en tæplega þrjú þúsund manns komu þá saman í tónlistarhúsinu, færri komust að en vildu og dansað var á göngum Hörpu. Þess ber einnig að geta að alls dansaði um fjögur þúsund manns um allt land.

Sjá einnig: Dönsum gegn ofbeldi

Minning Birnu Brjánsdóttur heitinnar er heiðruð í ár en í kjölfar hvarfs hennar í miðborg Reykjavíkur stigu fram fjöldi kvenna og lýstu ótta sínum og óöryggi þegar þær ferðast milli staða á kvöldin og að næturlagi.

Þetta er í fimmta sinn sem fólk sameinast og dansar fyrir þolendum kynbundins ofbeldis og sýnir þeim samstöðu. Í ár verður dansað í Reykjavík, Akureyri, í Rifi Snæfellsnesi, Ísafirði, Seyðisfirði, Reykjanesbæ, Neskaupstað, Hvammstanga, Borgarnesi, Egilsstöðum og á Höfn í Hornafirði.

Dj Margeir setur tóninn og óvæntir gestir sjá til þess að þakið rifni af Hörpu. Aðgangur er ókeypis og hægt verður að leggja frítt við Hörpu á meðan fjörinu stendur en UN Women hvetur fólk til að koma gangandi eða nota almenningssamgöngur.


Tengdar fréttir

Dönsum gegn ofbeldi

Í dag fer fram í dansbyltingin Milljarður rís í Hörpu. Í ár er minning Birnu Brjánsdóttur heiðruð. Yfir milljarður karla, kvenna og barna kemur saman til að dansa fyrir réttlæti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×