Innlent

Bein útsending: Blekkingin við einkavæðingu Búnaðarbankans rædd á þingi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá Alþingi.
Frá Alþingi. Mynd/Anton Brink
Þingfundur hefst á Alþingi nú klukkan 10:30 með óundirbúnum fyrirspurnatíma ráðherra. Samkvæmt vef Alþingis sitja þau fyrir svörum Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, Benedikt Jóhannesson, fjármála-og efnahagsráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, og Björt Ólafsdóttir, umhverfis-og auðlindaráðherra.

Fastlega má búast við því að ráðherrarnir spurðir út í það helsta sem er til umræðu í þjóðfélaginu nú, það er skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser að einkavæðingu Búnaðarbankans, kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík og útgerðarfyrirtækið HB Granda sem hefur frestað því að flytja landvinnslu botnfisks frá Akranesi til Reykjavíkur eftir að hafa tilkynnt um flutninginn fyrr í vikunni.

Eftir að óundirbúnum fyrirspurnum lýkur verður svo skýrsla rannsóknarnefndarinnar um einkavæðingu Búnaðarbankans rædd á þingi en eins og greint var frá í gær er það niðurstaða nefndarinnar að stjórnvöld, almenningur og fjölmiðlar hafi verið blekkt þegar því var haldið fram að þýski bankinn væri að kaupa hlut í Búnaðarbankanum árið 2003.

Hauck & Aufhäuser hafi í raun aldrei verið kaupandi að hlutnum heldur aflandsfélag sem á endanum hagnaðist um 100 milljónir dollara vegna viðskiptanna en rúmlega helmingur hagnaðarins rann til aflandsfélags í eigu Ólafs Ólafssonar og hinn helmingur til félags sem ekki er vitað hver átti þó rannsóknarnefndin telji líkur á að það hafi tengst Kaupþingi og stjórnendum þar.

Fylgjast má með beinni útsendingu frá fundi Alþingis í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×