Enski boltinn

Begovic um stöðuna hjá Chelsea: Megum ekki fara að vorkenna sjálfum okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Asmir Begovic.
Asmir Begovic. Vísir/Getty
Asmir Begovic, varamarkvörður Chelsea, kallar eftir því að leikmenn liðsins sýni meiri karakter og hugi aftur að grunnatriðum fótboltans. Það hefur lítið gengið hjá Englandsmeisturunum í upphafi tímabilsins.

Chelsea tapaði aðeins þremur leikjum allt síðasta tímabil en hefur nú tapað fjórum af fyrstu átta leikjum sínum á þessu tímabili. Liðið er þegar búið að fá á sig 17 mörk í þessum átta leikjum eða meiri en helming af því sem liðið fékk á sig í öllum 38 leikjunum á síðasta tímabili.

„Svona er lífið og svona er fótboltinn. Þetta er upp og niður hjá liðum. Við erum í niðursveiflu núna og þurfum að bæta okkur. Við verðum að huga aftur af grunnatriðunum og leggja meira á okkur," sagði Asmir Begovic við heimasíðu Chelsea.

„Við þurfum að sýna rétta karakterinn og megum ekki fara að vorkenna sjálfum okkur. Þetta gengi er ekki það sem við eigum að venjast hjá félaginu og þetta er því mjög erfiður tími fyrir alla," sagði Begovic.

„Það er alltaf erfitt þegar hlutirnir eru ekki að falla með þér þá en við verðum bara að berjast í gegnum þetta þó að það líti út fyrir að við séum að spila á móti mörgu þessa dagana," sagði Begovic.

„Vonandi kemur þetta landsleikjahlé á réttum tíma og hjálpar okkur að endurstilla liðið. Svo er bara að vinna fyrsta leikinn eftir hlé og byggja ofan á því. Markmið er enn það að berjast um toppsæti deildarinnar," sagði Begovic.

Asmir Begovic kom til Chelsea í sumar og er því einn af fáum leikmönnum liðsins sem vann ekki enska meistaratitilinn í fyrra. Hann hafði leikið með Stoke City frá árinu 2010 en hefur verið í Englandi frá því að hann var sextán ára.

Asmir Begovic fær hér á sig mark.Vísir/Getty

Tengdar fréttir

Mourinho: Vill enga strúta hjá félaginu

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að leikmenn sínir geti ekki stungið hausinum í sandinn til að fela sig líkt og strútar gera eftir slakt gengi undanfarnar vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×