Innlent

Beðin um að hringja tíu ára son sinn inn veikan

Samúel Karl Ólason skrifar
„En þessi kona tilkynnti mér að hann gæti ekki mætt í prófin. Hann hefði farið í lesskimunarprófið um morguninn og það hefði gengið svo illa að hann hefði brotnað niður og liðið skelfilega.“ Myndin tengist fréttinni ekki beint.
„En þessi kona tilkynnti mér að hann gæti ekki mætt í prófin. Hann hefði farið í lesskimunarprófið um morguninn og það hefði gengið svo illa að hann hefði brotnað niður og liðið skelfilega.“ Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/GVA
Freyja Búadóttir birti í gær pistil, þar sem hún segir frá því þegar kennarar við skóla sonar hennar ráðlögðu henni að hringja hann inn veikan þegar samræmdu prófin í fjórða bekk færu fram. Segir hún að kennari við skóla hans hafi sagt að ef hann myndi taka prófið myndi hann upplifa sig heimskan.

Freyja segist hafa fengið símtal frá kennara hans, í byrjun september þar sem kennarinn spurði hvernig hann væri stemmdur fyrir samræmdu prófin.

„Ég sagði henni að ég hefði litlar áhyggjur af þessu prófi, við gerðum ekki mikið úr þessum prófum frekar en öðrum prófum sem eru lögð fyrir í skólum og hvöttum hann nú, sem áður, að gera bara sitt besta og hafa engar áhyggjur. Niðurstöður prófsins myndu ekki hafa nein áhrif á hans skólagöngu og að við værum stolt af honum fyrir að gera sitt besta, það væri meira en nóg.“

Þá spurði kennarinn hvort Freyja hefði velt því fyrir sér að hringja hann inn veikan prófdegi. Þá þyrfti hann ekki að taka prófin og ekki væru lögð sjúkrapróf. Sagðist hún hafa áhyggjur af velferð hans og andlegri líðan, myndi hann mæta í prófin.

„Mér fannst það líka frekar undarlegt þar sem andleg líðan hans var í góðu standi og ekkert sem benti til neins próf- né skólakvíða,“ skrifar Freyja.

Sagður hafa brotnað niður í prófi

Freyja og maður hennar ræddu til öryggis við lækni sem hafði hitt hann skömmu áður. „Henni fannst þetta jafn einkennilegt og mér þar sem hann sýndi engin merki kvíða og engin ástæða væri til annars en að mæta í prófið.“ Eftir það sendi Freyja kennaranum póst um að hann myndi mæta í prófið.

„Vikan leið og komið var að lesskimunardegi, enn sýndi barnið enginn kvíðaeinkenni og hafði engar áhyggjur af þessum prófum, enda engin áhersla lögð á þau frá heimilinu og ekkert stress.“

Þá segist Freyja hafa fengið enn undarlegra símtal. Sérkennari sem hún hafi aldrei hitt, né hafi aldrei hitt son hennar, hafði verið beðin um að hringja í hana. Það hafi Freyju aftur þótt stórundarleg vinnubrögð og sérstaklega einkennileg samskipti.

„En þessi kona tilkynnti mér að hann gæti ekki mætt í prófin. Hann hefði farið í lesskimunarprófið um morguninn og það hefði gengið svo illa að hann hefði brotnað niður og liðið skelfilega.“

Mun upplifa sig sem heimskan

Freyja segist hafa fengið „hálfgert sjokk“ og spurði hvort ekki væri allt í lagi með hann og hvort hún ætti ekki að koma og sækja hann. Hann hefði ekki minnst á að honum liði illa og ekkert benti til þess. Konan sagðist ekkert vita um málið og að hún hefði bara verið beðin um að koma þessum skilaboðum til hennar.

„Ég spurði hana hvort henni þætti þetta eðlileg samskipti við foreldri? Að hringja og tilkynna að barnið hefði brotnað niður í prófi og það frá manneskju sem var ekki á staðnum og gæti ekki einu sinni sagt mér hvernig hefði verið brugðist við og af hverju hefði ekki verið haft samband við mig strax?“

Freyja sagði að ef hann væri að brotna niður í prófi væri það vegna pressu frá skólanum, en ekki heimilinu. Það þyrfti að rannsaka frekar, að ekkert við þetta væri í lagi og að hann myndi mæta í prófin.

„Þá sagði þessa kona setningu sem ég mun seint gleyma, ef nokkurn tíma. Enda var hún orðin reið þarna að ég skyldi hreinlega ekki segja já og amen strax og sagði hún við mig: „Veistu það, ef hann mætir í þessi próf þá mun hann bara upplifa sig heimskan!“,“ skrifar Freyja.

Velti pressunni fyrir sér

Freyja veltir því fyrir sér hvað ætti að valda því að barn í 4. bekk upplifi sig heimskt og hvernig pressa sé sett á barn á þessum aldri til að slíkt gerist í prófi.

„Þegar búið er að ítreka heiman frá að þessi próf séu sett upp þannig að fæstir nái að klára og því eigi bara að gera eins mikið og hann treystir sér til og að hann þurfi ekki að klára, bara gera það sem hann getur og sleppa rest. OG það sé allt í lagi, það er allt í lagi að klára ekki próf, það er allt í lagi að geta ekki allt, það getur enginn allt.“

Hún segist hafa orðið hálf orðlaus og orðin miður sín eftir þessar tilkynningar og „eitt af þeim dónalegustu“ símtölum sem Freyja hafi átt við fullorðna manneskju. Hún kvaddi konuna sem stóð fast á sínu að hann hefði ekki leyfi til að mæta í prófin.

Eftir það hringdi maður Freyju í kennarann.

„Hann byrjaði á að segja að við hefðum fyrir löngu sagt að hann myndi mæta í þessi próf og við það væri staðið, já ekkert mál svaraði konan. Henni datt ekki til hugar að rökræða neitt við manninn minn, eins mikinn dónaskap og hún sýndi mér þá sagði hún bara já og amen við hann.“

Ekkert að þessu hafði gerst

Freyja fór heim til að taka á móti syni sínum og var hrædd um að honum liði illa og væri miður sín yfir prófinu. Hann hafi þó komið heim stuttu seinna og sagt brosandi að honum hafi gengið mjög vel.

„Ég reyni að fela undrun mína og spyr hvort að kennarinn hans hafi nokkuð talað eitthvað við hann í dag, hún hafi nefnilega haft samband við mig og haft áhyggjur yfir að honum liði kannski ekki nógu vel. Hann lítur hissa á mig og spyr: Af hverju hélt hún það? En nei hún talaði ekkert við mig í dag.“

Við þetta segir Freyja að tvær grímur hafi runnið á sig. Ekkert af því sem henni hafi verið tilkynnt hafi gerst.

„Hann brotnaði ekki niður í prófinu. Enginn ræddi við hann og ekkert gerðist, það átti bara að beita öllum ráðum til að hann myndi ekki mæta í prófin þar sem vitað var að hann myndi ekki fá yfir meðaleinkunn (sem var í góðu lagi okkar vegna, þessi próf eru ekki lögð fyrir til að bara þau börn sem skora hátt í bóklegum fögum taki þau!).“

Höfðu fengið nóg

Við það höfðu Freyja og maður hennar samband við Námsmatsstofnun og Menntamálaráðuneytið og lögðu þau fram formlega kvörtun.

„Þá fengum við að heyra það frá námsmatsstofnun að þetta væri ekki fyrsta kvörtunin og heldur ekki í fyrsta skipti þar sem þau heyra frá skólum sem koma svona hrikalega fram við mæðurnar en um leið og feðurnir myndu blanda sér í málið myndu allir bakka.“

Freyja veit þó ekki hvað hafi orðið um þessa kvörtun þar sem fjölskyldan flutti frá Íslandi skömmu seinna.

„Hann kláraði að taka prófin og gekk bara vel, fékk verðlaun frá okkur fyrir góðan árangur og sjálfur upplifði hann það slíkt að þetta gekk vel og miðað við hans stöðu námslega á þessum tíma þá kom árangur hans okkar foreldrunum á óvart, hann stóð sig nefnilega mjög vel.“

Þó hugsar hún öðru hverju um þennan tíma og þessi samskipti skólans við þau. Þá segist hún þakka kannski mest fyrir í dag að sonur hennar gangi ekki í þennan skóla lengur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×