Enski boltinn

Bebé seldur til Benfica

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Bebé á góðri stundu með United.
Bebé á góðri stundu með United. vísir/getty
Portúgalski framherjinn Bebé hefur yfirgefið herbúðir Manchester United, en enska félagið seldi hann til Portúgalsmeistara Benfica

Hann fer frítt til portúgalska liðsins, en Benfica gæti þurfti að greiða United allt að þremur milljónum punda í árangurstengdar greiðslur og svo fær enska félagið helminginn af næstu sölu.

Bebé þekkti enginn þegar hann kom til United frá Guimaraes fyrir fjórum árum, en Sir Alex Ferguson heimilaði 7,5 milljóna punda kaup á leikmanninum án þess að hafa séð hann spila.

Bebé spilaði tvo leiki fyrir United í deildinni, báða sem varamaður, og kom við sögu í þremur bikarleikjum. Honum tókst ekki að skora mark.

United lánaði þennan 24 ára gamla leikmann til Besiktas, Rio Ave og Pacos de Ferreira, en nú hefur hann verið seldur til Benfica og gerði hann fjögurra ára samning við félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×