Fótbolti

Bayern bikarmeistari í síðasta leik Guardiola

Thiago, miðjumaður Bayern, leikur hér á varnarmann Dortmund.
Thiago, miðjumaður Bayern, leikur hér á varnarmann Dortmund. Vísir/Getty
Bayern Munchen varð bikarmeistari í Þýskalandi í dag en eftir markalausar 120. mínútur þurfti vítaspyrnukeppni til að útkljá leikinn og höfðu leikmenn Bayern betur þar.

Var mikil eftirvænting fyrir leiknum í Þýskalandi en Dortmund var eina liðið sem veitti Bayern einhverja keppni um þýska meistaratitilinn. Þá var þetta síðasti leikur Bayern Munchen undir stjórn Pep Guardiola.

Mats Hummels byrjaði leikinn í miðri vörninni hjá Dortmund í dag en þetta er síðasti leikur hans fyrir félagið eftir að gengið var frá félagsskiptum hans til Bayern Munchen. Var hann tekinn af velli á 69. mínútu gegn verðandi samherjum sínum.

Liðunum gekk illa að skapa færi og þurfti því að grípa til framlengingar og síðar meir vítaspyrnukeppni en besta færi leiksins fékk Pierre-Emerick Aubameyang eftir undirbúning Henrikh Mkhitaryan en skot hans fór yfir.

Þurfti því vítaspyrnukeppni til að útkljá leikinn í Berlín og þar reyndust taugar þýsku meistaranna sterkari. Sven Bender, miðjumaður Dortmund, lét Manuel Neuer verja frá sér og Sokratis fylgdi því eftir með því að skjóta framhjá.

Kom því ekki að sök þegar varið var frá Joshu Kimmich því Arturo Vidal, Douglas Costa, Robert Lewandowski og Thomas Müller nýttu víti sín fyrir Bayern Munchen og tryggðu liðinu sigurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×