Innlent

Bauð barni sælgæti fyrir utan leikskóla

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Starfsfólki leikskólans Björtuhlíð í Grænuhlíð í Reykjavík barst í gær tilkynning um að karlmaður hafi teygt sig yfir girðingu leikskólans, kitlað barn og boðið því sælgæti. Maðurinn er sagður hafa legið í grasinu fyrir utan leikskólann og átt samskipti við börnin.

Arndís Bjarnadóttir leikskólastjóri sendi foreldrum tölvupóst vegna málsins í dag og sagði að búið sé að ræða við alla starfsmenn. Enginn hafi hins vegar orðið var við manninn en að farið hafi verið yfir verklagsreglur starfsmanna á útileiksvæðinu til þess að skerpa á eftirliti á leikskólalóðinni. Þá hafi lögreglu verið gert viðvart sem og skóla- og frístundasviði.

Fram kemur í tölvupóstinum að í frásögn barnsins hafi komið fram að maðurinn hafi legið í grasinu fyrir utan girðingu leikskólans. Hann hafi verið í gallabuxum og með síma í vasanum. Þá hafi hann kitlað barnið og gefið því nammi sem hann setti á girðinguna.

Arndís vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað og vísaði á Sigrúnu Björnsdóttur, upplýsingafulltrúa Reykjavíkurborgar, sem jafnframt neitaði að tjá sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×