Sport

Bartoletta vann bandaríska einvígið með tveimur sentímetrum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tianna Bartoletta frá Bandaríkjunum varð í nótt Ólympíumeistari í langstökki kvenna á Ólympíuleikunum í Ríó en sigurinn var naumur eftir mikið bandarískt einvígi.

Tianna Bartoletta háði mikið einvígi við löndu sína Britney Reese en Britney Reese vann Ólympíugullið í London fyrir fjórum árum síðan.

Þær skiptust á því að hafa forystuna á lokakafla keppninnar. Britney Reese stökk fyrst 7,09 metra en Bartoletta svaraði með því að stökkva 7,17 metra sem skilaði henni gullinu.

Britney Reese átti reyndar annað gott stökk en 7.15 metra stökk var ekki nóg og hún þurfti að sjá á eftir Ólympíugullinu til Bartoletta. Það munaði því bara tveimur sentímetrum á gulli og silfri.

Ivana Spanovic frá Serbíu, sem stökk lengst í undankeppninni, varð síðan þriðja og fékk bronsið en hún stökk 7,08 metra.

Darya Klishina, eini Rússin í frjálsíþróttakeppni, tók þátt í langstökki kvenna og varð níunda.

Tianna Bartoletta er þrítug og ríkjandi heimsmeistari í langstökki síðan í Peking 2015 en hún vann einnig heimsmeistaragull í Helsinki tíu árum áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×