Innlent

Barnshafandi þurftu yfir ófærar heiðar

Sveinn Arnarsson skrifar
Ófærð setur strik í reikninginn fyrir verðandi mæður á Norðurlandi
Ófærð setur strik í reikninginn fyrir verðandi mæður á Norðurlandi Vísir/Auðunn
Aðfaranótt sunnudags komu tvær konur inn á fæðingardeild Sjúkrahússins á Akureyri, langt að í sjúkrabifreiðum með hjálp björgunarsveitarmanna, þar sem talið var að þær þyrftu að komast undir læknishendur sem fyrst. Önnur þeirra kom frá Dalvík en hin yfir Öxnadalsheiði úr Skagafirði. Á þeim tíma var veður válynt og tókst við erfið skilyrði að koma barnshafandi konunum undir læknishendur.

Ingibjörg Hanna Jónsdóttir, forstöðuljósmóðir við Sjúkrahúsið á Akureyri, telur þá umgjörð sem sé búin fæðingum á Norðurlandi ekki nógu góða fyrir þær konur sem koma langt að. Fæðingardeild Sjúkrahússins á Akureyri sinnir öllu Norðurlandi og einnig hafa konur komið frá Austurlandi. Engar skipulagðar fæðingar eru í Þingeyjarsýslum, á norðanverðum Tröllaskaga og á Norðvesturlandi. „Þetta er mjög streituvaldandi ástand fyrir konur sem koma langt að, sem bætir ofan á tilhlökkun og kvíða sem fylgir óneitanlega fæðingunni. Þessir hlutir eru þeir sem reynast erfiðastir fyrir barnshafandi konur sem koma langt að og sem búa hinumegin við fjöll sem lokast oft á tíðum á vetrum. Sá þáttur veldur mestri streitu hjá þeim konum og það er ekki gott fyrir barnshafandi konur að búa við slíka óvissu,“ segir Ingibjörg Hanna.



Björgunarsveitir þurftu að hjálpa sjúkrabílum með barnshafandi mæður yfir hálfófærar heiðar og vegi.Vísir/Auðunn
„Þurfum að bæta þjónustu við konur sem koma langt að“

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, segir það skipta máli að konur sem búa langt frá fæðingarþjónustu finni samt fyrir öryggi við lok meðgöngu. „Fæðingarþjónusta hefur verið lögð af víða vegna þess að það er ekki hægt að manna vaktir til að sinna fæðingum sem skyldi. Heilbrigðisþjónusta sem þessi er að verða tæknilegri og miðlægari. Af þeim sökum verðum við að búa til umgjörð sem tryggir fólki jafnræði þegar það þarf að nota þjónustuna. Konan á Vopnafirði nýtur ekki sama jafnræðis og konan á höfuðborgarsvæðinu, en hún verður að fá stuðning til að sækja þá þjónustu sem hún þarf á að halda,“ segir Sigríður Ingibjörg. 

Undir þetta tekur Ingibjörg Hanna og bendir á að fá úrræði séu til fyrir barnshafandi mæður þegar kemur að því að fá gistingu á Akureyri þegar þær bíða fæðingar. „95 prósent fæðinga eiga sér stað á fjögurra vikna tímabili meðgöngu. Erfiðlega getur gengið fyrir barnshafandi konur að skipuleggja þann tíma. Þessi óvissa einnig getur haft áhrif á líkamlega heilsu kvenna. Við þurfum að búa konum, sem koma langt að, betri aðstöðu.“


Tengdar fréttir

75 milljónir í síðdegishressingu

Foreldrar munu greiða 178,5 krónur á dag fyrir hollan bita síðdegis á Frístundaheimilum borgarinnar á meðan leikskólabörnum eiga að duga 280 krónur fyrir fullt fæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×