Fótbolti

Barnapía strákanna okkar styður Ísland þrátt fyrir að hafa alist upp í París

Kolbeinn Tumi Daðson skrifar
Kristján Óli Pascalsson Ssossé er 28 ára hálfur Frakki og hálfur Íslendingur. Hann skilgreinir sig sem barnapíu strákanna okkar og ber þeim vel söguna. Kristján Óli vinnur hjá fjárfestingarsjóði í París og fékk veður af því að Evrópska Knattspyrnusambandið væri að leita að starfsmanni fyrir Evrópumótið sem talaði bæði frönsku og íslensku. 

„Ég er að tala við hótelin, tala við vallarstjórann hér, tala við leikvangana sem er verið að fara á. Passa að menn fari á réttum tíma og allt sé tilbúið á þeim stöðum þangað sem við erum að fara. Ég er eiginlega bara barnapía,,“ segir Kristján Óli. Hann líkir sér við foringja í sumarbúðum.

Kristján Óli fæddist á Reyðarfirði þaðan sem móðir hans var en faðir hans er franskur. Hann heldur góðum tengslum við fjölskyldu sína á Íslandi og þakkar því hve vel honum tekst að halda íslenskunni við. Hann segir landsliðsmennina hafa tekið sér vel.

„Þetta eru fínir strákar, ég bjóst ekki við neinu öðru. Þeir eru mjög afslappaðir,“ segir Kristján Óli sem segir þá ekki mjög stríðna.

Það er greinlegt á Kristjáni Óla að hann er stoltur af því að vera hluti af landsliðshópnum sem er að rita nýjan kafla í heimsfótboltasöguna. Það sé frábært að vera með liðinu í aðdraganda stórleiksins gegn Frakklandi. En hvora þjóðina styður hann í París á sunnudaginn?

„Ísland, 100 prósent.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×