Skoðun

Barnaborgin

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Öll börn eiga að hafa jöfn tækifæri til að vaxa og dafna og rækta hæfileika sína. Reykjavíkurborg gegnir mikilvægu hlutverki í að stuðla að þessum tækifærum enda kemur hún með einum eða öðrum hætti að uppvexti barna, hvort sem er í skóla, leik eða starfi. Til að hlúa að stöðu barna og barnafjölskyldna í Reykjavík kynnti Samfylkingin nýlega í fjórum liðum „barnapakkann“ fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Reykjavík er hagstæðust

Reykjavík á áfram að koma ríkulega til móts við barnafjölskyldur þannig að þær geti treyst því að það sé hagstæðast að búa og njóta þjónustu borgarinnar. Barnafjölskyldur eiga oft erfitt með að láta enda ná saman. Þær þurfa í hverjum mánuði að standa skil á lánum vegna íbúðakaupa eða húsaleigu, borga af bíl, greiða fyrir leikskólapláss eða aðra dagvistun og tómstunda- og íþróttastarf barnanna. Sömuleiðis greiða margar ungar fjölskyldur af námslánum sínum. Borgin getur leikið lykilhlutverk í að létta byrði barnafjölskyldna.

Bilið brúað

Samfylkingin ætlar að vinna að því að eyða þeirri óvissu sem bíður margra ungra fjölskyldna þegar fæðingarorlofi foreldra lýkur. Eitt af forgangsmálum Samfylkingarinnar á næsta kjörtímabili verður að taka markviss skref til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og þar til börn komast inn á leikskóla. Þetta er metnaðarfullt og kostnaðarsamt verkefni, sem þarf að vinna í samráði við foreldra, leikskóla og dagforeldra.

Afsláttur og hærri styrkur

Við munum leita leiða til að draga úr kostnaði foreldra við skóla- og frístundastarf barna þeirra. Við viljum hækka frístundastyrk með hverju barni í 50 þúsund krónur á kjörtímabilinu í samstarfi við íþróttafélög, tónlistarskóla og æskulýðssamtök. Fjárhagur foreldra á ekki að ráða úrslitum um þátttöku barna í frístundastarfi og frístundakortið gegnir mikilvægu hlutverki í að tryggja að svo sé ekki. Þá ætlar Samfylkingin að taka upp samræmdan systkinaafslátt þvert á skólastig, sem er kjarabót sem nýtist barnmörgum fjölskyldum. Barnapakki Samfylkingarinnar á að tryggja að Reykjavík verði áfram leiðandi í þjónustu við börn og barnafjölskyldur.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×