Körfubolti

Barkley og Shaq kepptust við að gera lítið úr afrekum hvors annars

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Reggie Miller með þeim Charles Barkley og Shaquille O'Neal.
Reggie Miller með þeim Charles Barkley og Shaquille O'Neal. Vísir/Getty
Það er ekkert skrýtið að TNT-sjónvarpsstöðin láti þá Shaquille O'Neal og Charles Barkley sitja eins langt frá hvorum öðrum og þeir geta í pallaborðsumræðum um úrslitakeppni NBA-deildarinnar.

Þeir Barkley og Shaq voru mættir  til að ræða fjórða leik Cleveland Cavaliers og Boston Celtics. Cleveland vann leikinn og er komið í 3-1. Þeir eru sjaldan sammála og voru alls ekki sammála um hvort að þetta væri leikur sem mátti alls ekki tapast.

Það besta í spjallinu var þó þegar þeir kepptust við að gera lítið úr afrekum hvors annars inn á körfuboltavellinum.

Shaquille O'Neal byrjaði en hann vildi meina að Barkley þekkti þessa stöðu ekki nægilega vel þar sem að hann hafði aðeins farið í úrslitaeinvígið einu sinni á ferlinum.

Barkley fór í úrslitin með Phoenix Suns árið 1993 en varð þá að sætta sig við tap á móti Michael Jordan og félögum í Chicago Bulls.

O'Neal vann NBA-titilinn fjórum sinnum, þrisvar með Los Angeles Lakers og einu sinni með Miami Heat.

Það stoppaði samt ekkert Charles Barkley þegar hann skaut til baka. Barkley hélt því fram að að Shaq hafi aðeins orðið meistari vegna þess að hann var liðsfélagi Kobe Bryant og Dwyane Wade. Barkley fór reyndar einu skrefi lengra og bætti við nafni Alonzo Mourning.

Það er hægt að sjá spjallið þeirra hér fyrir neðan.







Þegar Lakers vann titilinn 2000 þá var Shaquille O'Neal með 30,7 stig og 15,4 fráköst að meðaltali í úrslitakeppninni, hann var með 30,4 stig og 15,4 fráköst í leik í sigrinum í úrslitakeppninni árið eftir og svo með 28,5 stig og 12,6 fráköst í leik í úrslitakeppninni 2002 þar sem Lakers vann þriðja árið í röð.  

Kobe Bryant var með 21,1 stig, 29,4 stig og 26,6 stig að meðaltali í þessum þremur úrslitakeppnum frá 2000 til 2002.

Þegar Shaq varð meistari með Miami Heat fjórum árum síðar þá var hann með 18,4 stig og 9,8 fráköst að meðaltali í leik. Dwyane Wade var þá með 28,4 stig, 5,9 fráköst og 5,7 stoðsendingar að meðaltali í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×