Erlent

Barist um rússnesku landamærin

ingvar haraldsson skrifar
Úkraínski herinn hefur verið í mikilli sókn undanfarið.
Úkraínski herinn hefur verið í mikilli sókn undanfarið. nordicphots/afp
Uppreisnarmenn í Úkraínu skutu í gær flugskeytum á úkraínska hermenn í Austur-Úkraínu þar sem nítján féllu. Þar að auki féllu fjórir hermenn í öðrum árásum.

Petró Pórósjenkó, forseti Úkraínu, hefur heitið hefndum fyrir aðgerðirnar. „Fyrir líf hvers hermanns munu uppreisnarmennirnir gjalda með tugum eða hundruðum lífa,“ sagði Pórósjenkó.

Hermennirnir sem féllu voru að reyna að ná eftirlitsstöðvum við landamærin við Rússland á sitt vald. Uppreisnarmenn stýra flutningum yfir hluta landamæranna við Rússland. Frá Rússlandi hafa uppreisnarmennirnir fengið vopn og vistir og því hefur herinn reynt að ná aftur stjórn á landamærunum.

Úkraínski herinn hefur verið í mikilli sókn undanfarið. Uppreisnarmenn hafa tapað um helmingi þess landsvæðis sem þeir höfðu undir sinni stjórn fyrir tveimur vikum. Um helgina náði úkraínski herinn borginni Slovyansk, einu af helstu vígjum uppreisnarmanna.

Uppreisnarmenn hafa nú hörfað til iðnaðarborgarinnar Donetsk, tæplega hundrað kílómetra suður af Slovyansk. Úkraínski herinn hefur gefið út að öllum samgönguleiðum til og frá borginni verði lokað. Milli þrjátíu og sjötíu þúsund manns hafa þegar yfirgefið borgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×