Lífið

Barðist við nasista, býr í Breiðholti

Svavar Hávarðsson skrifar
Visir/Antonbrink
María Alexandrovna Mitrofanova er 92 ára gömul, fædd 28. febrúar 1925 í borginni Smólensk í Rússlandi. Fyrir tvítugt lauk hún þjálfun sem loftskeytamaður innan Rauða hersins, hers Sovétríkjanna. Hún var send á vígstöðvarnar við Leníngrad í byrjun árs 1944 til að berjast við innrásarher Þjóðverja. Hún býr í Breiðholtinu.

Í Fossvogskirkjugarði stendur rússneska minnismerkið Von eftir Vladimir Surovtsev. Það er til minningar um sjómenn sem fórust í ferðum skipalesta á Norður-Íshafinu í heimsstyrjöldinni síðari. Þar tók Gísli Jökull Gíslason rannsóknarlögreglumaður fyrst eftir Maríu Alexandrovnu á vordögum 2014, nánar tiltekið á sigurdaginn 9. maí þegar Rússar minnast ár hvert sigursins á fasistum og lokum Föðurlandsstríðsins mikla – átaka sem stóðu yfir samfleytt í tæp fjögur ár og höfðu áður en yfir lauk kostað meira en 30 milljónir manna lífið.

Það sem leiddi Jökul og Maríu Alexandrovnu saman var ævilangur nördískur áhugi hans á heimsstyrjöldinni. Hann á módelheri og sviðsetur ásamt vinum sínum valdar orrustur á heimatilbúnum vígvöllum – og tekur að sér að halda fyrirlestra um seinni heimsstyrjöldina. Á einum slíkum voru fulltrúar frá sendiráði Rússlands í áheyrandahópnum – enda taka þeir það alvarlega hvernig fjallað er um þennan tíma í rússneskri sögu og ekki síst Föðurlandsstríðið. Jökull segir að eitthvað hljóti hann að hafa gert rétt því um árabil hefur sendiráðið boðið honum að taka þátt í 9. maí hátíðarhöldunum, hvar þau María Alexandrovna kynntust.



Flames of War

„Í sendiráðinu hafði ég sett upp Flames of War borð sem sýndi bardaga í litlu þorpi í gömlum austur-evrópskum stíl. Kona kom til mín og spurðist fyrir, en ekki var um ákveðið þorp að ræða. Bardaginn hins vegar var hugsaður sem hluti af stórsókn Rússa sumarið 1944 í gegnum Hvíta-Rússland. Stuttu síðar sneri konan til baka með þær upplýsingar að þetta stæðist ekki. Svona þorp hefði ekki verið í Hvíta-Rússlandi, það hefði verið Rússlandsmegin nálægt Smól­ensk,“ segir Jökull sem ályktaði strax sem svo að skilaboðin væru frá gömlu konunni í kirkjugarðinum sem hafði fangað athygli hans. Ekki síst fyrir hvað hún bar sig vel, og orðurnar sem hún bar á kápunni sinni.

„Ég dró þá ályktun að móðir konunnar hlyti að vera gamla konan með orðurnar. Ég spurði á móti hvort mamma hennar hefði verið þar. Já, hún hafði verið fjarskiptamaður í Rauða hernum, þjálfuð til að vera send með úrvalssveitum fallhlífarliða aftur fyrir víglínuna til að njósna um óvininn. Í framhaldi var ég kynntur fyrir Maríu. Hún gekk að borðinu og benti mér á hermenn sem ég hafði málað og sagðist hafa verið í svona búningi en þetta voru einmitt þeir hermenn í samfestingum sem tilheyrðu úrvalssveitum og voru ólíkir herbúningum almenna fótgönguliðsins. Mér fannst stórkostlegt að fá að hitta konu sem hafði lifað þessa tíma,“ segir Jökull sem vinnur þessa dagana að handriti bókar þar sem hann fléttar saman ævisögu Maríu Alexandrovnu og stríðið á austurvígstöðvunum.

„Eftir að hafa fengið að taka nokkur viðtöl við Maríu þá freistaðist ég til að skrifa bók. María hélt ekki dagbækur og best hefði verið að við hefðum hist 20 árum fyrr, og ég samt vitað það sem ég veit í dag. Það skiptir máli að þekkja stóru söguna til að skilja sögu Maríu betur því hún hefur lifað á svo stórkostlegum umbrotatímum. Meirihluti bókarinnar er um stóru söguna, en svo er gaman að horfa á sömu atburði út frá einni konu sem upplifði þetta allt á eigin skinni,“ segir Jökull.

Visir/Antonbrink
Pavlova

María Alexandrovna býr í Breiðholtinu ásamt dóttur sinni Marínu, eiginmanni hennar Júríj og syni þeirra Denis. Heimili Maríu og fjölskyldu hennar er látlaust. Þar er ekkert sem minnir á þann tíma sem hún gegndi herþjónustu – eða yfirhöfuð nokkuð sem minnir á þá miklu örlagatíma sem hún hefur lifað. En dúklagt stofuborðið svignar undan smákökum, konfekti og heimabakaðri Pavlovu – og maltöli – sem blaðamanni er boðið ásamt tesopa.

Það gleymist fljótt að María Alexandrovna er á tíræðisaldri – ekkert bendir til þess í útliti hennar eða fasi. Hún furðar sig hins vegar á veru blaðamanns við stofuborðið hennar – enda sér hún ekki hvað er merkilegt við það að fyrrverandi hermaður í Rauða her Sovétríkjanna verji ævikvöldinu í Breiðholtinu.

Hún er ein átta systkina sem öll komust á legg. Foreldrar hennar, Alexander Ivanovich Palkovskiy og Alexandra Semyonovna Palkovskaya, voru frá Úkraínu og höfðu gifst 1913. Faðir hennar barðist í rússneska keisarahernum í fyrri heimsstyrjöldinni en gerðist síðar prestur. Hann þjónaði ekki í rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni heldur í evangelískum lúterskum söfnuði, en nokkuð var um slíka söfnuði mótmælenda í Rússlandi á þeim tíma. María Alexandr­ovna minnist foreldra sinna með hlýju. Segir þau hafa verið ástrík og umhyggjusöm, þó að þau væru ströng og fátæk.

Í útlegð

Það var ekki auðvelt hlutskipti að vera prestur á þessum árum og Alexander faðir Maríu var handtekinn tvisvar af öryggislögreglunni fyrir að vera með and-sovéskan áróður. Það að vera prestur dugði til. Eftir síðari handtökuna 1931 var hann sendur í útlegð til Krasnovishersk við Úralfjöll þar sem voru stórar fangabúðir. Fjölskyldan fylgdi honum þangað. Forlögin stokkuðu spilin með þeim hætti að María Alexandrovna og fjölskyldan voru ekki lengi á einum stað – þau fluttu til Andijan í Úsbekistan þar sem hún fór í þriðja og fjórða bekk. Andijan var enn sunnar og austar en Krasnovihersk og var líka algengur staður fyrir þá sem voru í útlegð. Vegna veikinda bróður hennar flutti fjölskyldan síðar til Múrmansk í Norður-Rússlandi, hvar lífið var erfitt. Þau þurftu að fara varlega og halda því leyndu að heimilisfaðirinn hefði verið prestur.

Árið 1937 sótti öryggislögreglan föður hennar á heimili þeirra í Múrmansk. Ekkert spurðist til hans framar. Eftir fall Sovétríkjanna reyndi fjölskyldan að fá upplýsingar um afdrif hans – það litla sem fundist hefur bendir til að hann hafi verið tekinn af lífi fljótlega eftir handtökuna. Móðir hennar var þá hins vegar enn þá með sex börn á heimilinu og hafði nú nær enga leið til að sjá þeim farborða eftir fráfall fyrirvinnunnar.

Til að létta á var ákveðið að María Alexandrovna skyldi fara til systur sinnar Dínu í Moskvu þar sem hún bjó til ársins 1940. Á sama tíma og hún kynntist æskuástinni sinni, en samband þeirra stóð í tvö ár. Þá breytti stríðið öllu. María, sem þá var 16 ára, var send til að vinna í verksmiðju. Hennar verkefni var að festa hausa á flugvélasprengjur – en hún vildi komast á vígstöðvarnar og taka þátt í að berjast gegn innrásarhernum.

Að vilja deyja

Henni tókst að lokum að komast í herinn með því að framvísa fölsuðum skjölum sem hún þurfti til að láta líta út fyrir að henni hefði verið veitt lausn frá störfum í hergagnaverksmiðjunni – en vinna í slíkri verksmiðju útilokaði að fólk fengi inni í hernum.

María Alexandrovna var loksins komin í herinn 17 ára gömul. Hún var send í skóla til að læra á sérstaka tegund talstöðvar. Hún var mjög spennt fyrir þessu verkefni. Henni var útvegaður samfestingur sem tilheyrði sérsveitum Sovétríkjanna. Hún fékk þjálfun á Mosin-Nagant-riffil og TT-33-skammbyssu og allt stefndi í að hún fengi hún að þjóna móðurjörðinni sem var hennar heitasta ósk.

„Ég var alls ekki hrædd. Aldrei,“ segir María Alexandrovna spurð um þessa viðsjárverðu tíma. „Ég fékk þjálfun í herskóla þar sem við vorum búin undir að fara yfir víglínuna. Við vissum vel hvert við vorum að fara. Það var engin óvissa eða hræðsla, þannig séð. Ég ætlaði þrisvar að deyja fyrir föðurlandið, en mér bara tókst það ekki. En það var óskaplega mikil gleði þegar sigurinn kom,“ segir hún og vísar til þess að örlaganornirnar bjuggu svo um að hún fékk aldrei að fara í fremstu víglínu – þrátt fyrir að sækja það fast að fá tækifæri til þess og í þrígang hélt hún að ósk sín yrði uppfyllt. Hins vegar fylgdi hún með herdeild sinni í humátt á eftir hernum sem keyrði áfram víglínuna og kom á þeirri leið í fæðingarborg sína Smól­ensk, og varð vitni að hinni gífurlegu eyðileggingu sem þar var eftir átökin og hernámið. Á þeirri leið varð herdeild hennar fyrir loftárás Þjóðverja.

Á þessum tíma var stórsókn Sovétmanna í fullum gangi og hún fylgdi á eftir framvarðasveitunum til Minsk. Henni fannst hlutverk sitt sem loftskeytamanns hversdagslegt. Það dró aðeins úr vonbrigðum Maríu þegar hún sá Þjóðverjana sem höfðu verið teknir til fanga og gengu niðurlútir í fylkingum fram hjá sveitum Rauða hersins.

„Við vorum ofsalega glöð þegar þjóðverjarnir höfðu verið sigraðir. En svo komu þessi vonbrigði og sára tilfinning yfir því að komast ekki almennilega í stríðið. Ég missti tvær vinkonur þar en komst sjálf af,“ segir María Alexandrovna en annar bræðra hennar, Pjotr, féll í stríðinu. Hann var 21 árs. Pjotr liggur í fjöldagröf ásamt 6.000 hermönnum Rauða hersins nærri Sosnovskiy. Hinn bróðir hennar, Danííl, særðist svo alvarlega að hann var leystur frá skyldum sínum sem hermaður.

Hún bætir því jafnframt við að hún beri engan kala til Þjóðverja í dag, þrátt fyrir allt. „Þeir eru eins og ég. Stundum hugsa ég hverjir foreldrar þeirra voru, þegar ég hitti þá. Þeir eru gott fólk og bera enga ábyrgð á því sem gerðist þá.“





Sér ekki hafið

María Alexandrovna segir líf sitt hafa verið gott. Fljótlega eftir stríð hitti hún verðandi eiginmann sinn Júríj Mitrofanov. Þau eignuðust dótturina Marínu, sem gekk í háskóla og lærði læknisfræði og útskrifaðist sem geðlæknir. Við hrun Sovétríkjanna breyttist líf fjölskyldunnar til hins verra, þau bjuggu þá í borginni Ríga í Lettlandi þar sem þeim fannst þau ekki lengur velkomin. Eftir stofnun Lettlands var þeim tilkynnt að fjölskyldan fengi ekki ríkisborgararétt. Kvöld eitt árið 1999 héldu þau fjölskyldufund og ræddu hvað þau ættu að gera. Maður Marínu vann fyrir erlent skipafélag og litlu skipti hvar þau myndu búa. Þau voru sammála um að þau vildu ekki lengur ala upp syni sína í Lettlandi. Það var á meðan þau veltu þessu fyrir sér að gamall vinur hringdi í þau. Sá var fluttur til Íslands og vildi að þau flyttu þangað, sem varð úr.

Þegar eiginmaður Maríu Alexandr­ovnu lést árið 2005 var ekkert sem hélt henni lengur í Lettlandi og hún fluttist til dóttur sinnar á Íslandi.

„Ég kann ekki tungumálið. Það eru svo fáir sem tala tungumálið mitt. Svo eru svo fáir hérna á Íslandi á mínum aldri. Ég er því mikið ein,“ segir María spurð um hvernig henni hafi liðið á Íslandi. „Þegar við bjuggum í miðbænum gat ég farið í göngutúr þegar veður leyfði; það var hægt að fara niður á bryggju og tala við sjómennina. Stundum fékk ég í soðið hjá þeim. Svo fór ég stundum niður að tjörn, og í miðbænum voru ýmsar sýningar og tónleikar. En hérna upp frá finnst mér svolítið erfitt að vera. Í Ríga bjó ég við fljótið – þar gat ég tyllt mér á bekkina og spjallað við fólk á mínum aldri. Hér veit ég að hafið er nálægt, en ég sé það ekki,“ segir María Alexandrovna.

Spurð hvort hún hugsi oft heim, er svarið einfalt. „Stöðugt.“ 

Það verður vart hjá því komist, verandi íslenskur, að spyrja Maríu hverju hún þakkar sinn háa aldur, sérstaklega í ljósi sögu hennar.

„Þessu er ömmustrákurinn minn alltaf að spyrja mig að. Foreldrar mínir hvorki reyktu né drukku. Pabbi og mamma fóru alltaf vel með sig og börnin sín, þó þau væru ströng. Við ólumst öll upp heilbrigð og hraust, þó systir mín hafi fengið skarlatssótt og dáið fimmtug. Reyndar hefur mig alltaf langað til að reykja og prófaði nokkrum sinnum. En í hvert einasta skipti leið mér svo illa að ég hætti við. Ég get ekki sagt að ég hafi aldrei smakkað vín – við fengum okkur stundum kampavín eða kirsuberja­líkjör á stórhátíðum. En við drukkum aldrei á hverjum sunnudegi, hvað þá oftar. Bróðir minn, sem er fjórum árum yngri en ég, drekkur samt og reykir svo sterkar sígarettur að nágranni hans kvartar stöðugt. Svo hverju get ég svarað?“ segir María Alexandrovna að lokubm.

Konur í Rauða hernum

Af stríðsþjóðunum voru Sovétríkin duglegust að nýta starfskraft kvenna í hernaði í seinni heimsstyrjöldinni. Líkt og í öðrum löndum unnu flestar konur í hergagnaiðnaði, landbúnaði og fylltu upp í störf sem menn höfðu yfirgefið til að berjast á vígstöðvunum. Rétt innan við milljón konur þjónuðu í Rauða hernum. Þær voru flugmenn, leyniskyttur, loftvarnahermenn, vélbyssuskyttur, í áhöfnum skriðdreka, loftskeytamenn, læknar, hjúkrunarfræðingar og partisanar. Áttatíu og níu konur voru sæmdar hinu æðsta heiðursmerki, hetja Sovétríkjanna.


Eftir innrás Þjóðverja buðu þúsundir kvenna sig fram til þjónustu í Rauða hernum en flestum var hafnað. Eftir hið gífurlega mannfall fyrsta árið opnuðust leiðir fyrir konur í herinn. Yfirleitt voru þeim fengin störf aftan við víglínurnar til að geta losað karlmenn í átökin en margar börðust samhliða bræðrum sínum.

Mörg afreka þeirra urðu fræg um Sovétríkin, til að mynda hlaut ein flugdeildin sem aðeins var mönnuð konum viðurnefnið Næturnornirnar hjá Þjóðverjum. Þær flugu úreltum tvíþekjum. Af því að vélarnar voru úreltar flugu þær mest á nóttunni og áttu það til að drepa á vélunum á meðan þær flugu yfir víglínu Þjóðverja og sleppa sprengjum sínum fyrirvaralaust.

 Rauði herinn komst líka að því að konur voru vel til þess fallnar að gerast leyniskyttur. Þær voru þolinmóðar, þoldu vel að vera í erfiðri líkamlegri stöðu og agaðar. Lyudmila Pavlichenko var ein afkastamesta leyniskytta Sovétríkjanna með 309 staðfest dráp.

Konur sinntu mörgum verkum í sovéska hernum og lögðu sitt af mörkum til lokasigursins. Á sama tíma fyrirbauð Hitler það alveg að konur sinntu öðrum störfum en ritarastörfum í þýska hernum. Að hans mati var það hlutverk kvenna að sinna heimilinu og ala börn.

 Framlag kvenna var þó sjaldan að fullu metið í Rauða hernum. Konur í yfirmannsstöðu áttu erfitt með að fá karlmenn til að hlýða skipunum sínum og kynferðisleg áreitni var útbreidd. Karlkyns yfirmenn áttu það til að taka sér frillur og kölluð þær vígvalla-eiginkonur. Konur í stöðu undirmanna áttu erfitt með að komast undan ágangi sumra þeirra. Líkt og í flestum menningarsamfélögum þess tíma var það álitinn siðferðisbrestur kvenna að slík sambönd mynduðust í stað þess að skella skuldinni á karlmennina. Önnur ástarsambönd mynduðust á milli annarra hermanna og kvenna en það þurfti að fara leynt með þau sambönd.

*Gísli Jökull Gíslason, Föðurlandsstríðið mikla og María. Austurvígstöðvarnar í seinni heimsstyrjöldinni. Vinnuhandrit, bls. 100








Fleiri fréttir

Sjá meira


×