Erlent

Barðist hetjulega áður en hann féll

Samúel Karl Ólason skrifar
Lík Ríkarðs fannst undir bílastæði árið 2012.
Lík Ríkarðs fannst undir bílastæði árið 2012. Vísir/AP
Ríkarður þriðji, konungur Englands, sem lést í orrustu árið 1485 er sagður hafa orðið fyrir fjölda sára áður en hann lést. Vísindamenn sem rannsakað hafa lík hans sem fannst undir bílastæði í Englandi árið 2012, segja hann líklega hafa fengið sárin sem ollu dauða hans eftir að hestur hans festist í mýri, eins og Shakespeare hefur gert frægt.

Meðal þess sem vísindamenn hafa skoðað er skökk mæna Ríkarðs, en hennar vegna kallaði Shakespeare konunginn kroppinbak. Með því að skanna beinagrindina fundust mörg sár sem hann hlaut í orrustu.

„Ríkarður þjáðist líklega mikið áður en yfir lauk,“ hefur AP fréttaveitan eftir Söruh Hainsworth sem tók þátt í rannsókninni. Hún segir að líklega hafi nokkrir menn gert atlögu að konunginum eftir að hann steig af hesti sínum.

Alls fundust ellefu sár á beinagrind Ríkarðs, en níu þeirra voru á höfuðkúpu hans. Þar á meðal eftir hnífa, sverð og langt vopn sem notað var til að draga riddara af hestum sínum. Eitt sárið sýndi fram á að Ríkarður hafði fengið gat á höfuðkúpuna eftir sverð.

Ríkarður var síðasti konungur Englands sem féll í orrustu, en hún átti sér stað þann 22. ágúst 1485. Þar börðust Ríkarður og Henry Tudor.

Sagnfræðingur við Oxford segir að niðurstöður rannsóknarinnar beri saman við aðrar heimildir um að Ríkarður hafi barist hetjulega áður en hann var veginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×