Innlent

Barði níu ára son sinn með stólfæti

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Úr Héraðsdómi Reykjaness.
Úr Héraðsdómi Reykjaness. Vísir / Stefán
Kona var í dag fundin sek um að hafa barið níu ára son sinn með stólfæti í bakið, í rassinn, í handleggi, í hægri mjöðm og í bringuna. Héraðsdómur Reykjaness dæmdi hana í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi. Konan viðurkenndi að hafa slegið drenginn með spýtu í bakið en sagði að það hefði verið vegna hegðunarvandamála hans.

Hálfbróðir drengsins tilkynnti málið til lögreglu eftir að kennari hafi fundið hann úti á götu, klæðalítinn og berfættan eftir barsmíðar sem hann hafi orðið fyrir að hálfu móður sinnar. Konan sagði að drengurinn hefði mætt illa í skólann og hafi í umrætt sinn læst sig inni á baði. Hún hafi orðið reið þar sem hún hafi verið orðin of sein í vinnuna og slegið son sinn þegar hann kom út af baðinu.

Konan hafnaði því hinsvegar að hafa hent syni sínum út heldur hafi hann sjálfur farið út. Taldi hún að hann myndi koma sjálfur til baka og elti hann ekki heldur fór að sinna öðrum börnum sínum. Fyrir dómnum sagðist hún sjá eftir þessum atburðum og að henni liði illa út af þeim.

Dómurinn gerði konunni að greiða 100 þúsund krónur í miskabætur en hálfbróðir drengsins tekur við bótunum fyrir hönd ólögráða bróður síns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×