Sport

Bardagi ársins blásinn af

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jose Aldo gegn Conor McGregor átti að vera bardagi ársins.
Jose Aldo gegn Conor McGregor átti að vera bardagi ársins. vísir/getty
Endanlega var staðfest í nótt að ekkert verður af bardaga ársins í UFC á milli heimsmeistarans Jose Aldo og írska vélbyssukjaftsins Conors McGregors um heimsmeistaratitilinn í fjaðurvigt.

Bardaginn átti að fara fram á UFC 189-bardagakvöldinu í Las Vegas 11. júlí þar sem Gunnar Nelson berst einnig gegn Brandon Thatch.

Heimsmeistarinn Aldo brákaði rifbein á æfingu í Ríó í síðustu viku, en UFC var búið að gefa út yfirlýsingu þess efnis að Brasilíumaðurinn hefði ekki meitt sig og bardaginn færi fram.

Dana White, forseti UFC, mætti svo í íþróttaþáttinn SportCenter á ESPN í Bandaríkjunum í nótt og tilkynnti að heimsmeistarinn væri meiddur og þannig gæti hann hvorki æft né barist.

Conor McGregor hefur leikið sér að því að taka beltið hans Aldo á blaðamannafundum og nú fær hann það upp í hendurnar.vísir/getty
Hræddir menn geta ekki barist

„Þetta er ákvörðun sem Aldo tekur. Mér líður ekki vel með hana. Við eyddum fullt af peningum í að kynna þennan bardaga og mikið af fólki var spennt. Þetta er mjög svekkjandi,“ sagði Dana White.

Aldrei áður hefur UFC sett upp aðra eins auglýsingaherferð fyrir einn bardaga, en Aldo og Conor flugu ríkjanna á milli í Bandaríkjunum til að kynna bardagann. Þá var einnig komið við í Brasilíu og Evrópu.

Conor mun samt sem áður berjast 11. júlí, en hann mætir Chad Mendes í hringnum og fær sigurvegarinn heimsmeistarabeltið til bráðabirgða. Sá hinn sami berst svo við Aldo þegar hann er orðinn heill af meiðslum sínum.

Eins og við mátti búast tók Írinn fréttunum ekkert sérstaklega vel og sagði:

„Ef menn eru hræddir um líf sitt þýðir ekkert fyrir þá að stíga inn í búrið. Læknarnir gáfu honum grænt ljós þar sem hann er bara marinn. Réttilega verður beltið bara tekið af honum og við berjumst um titilinn til bráðabirgða. Eða eins og ég lít á þetta: Alvöru beltið.“

UFC 189 verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.

MMA

Tengdar fréttir

Conor um Aldo: Hristu af þér meiðslin

Conor McGregor, kjaftfori UFC-bardagakappinn, segir að mótherji hans á UFC 189 í júlí, Jose Aldo, eigi að hrista af sér meiðslin og berjast eins og maður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×