Erlent

Bardagar í Úkraínu þrátt fyrir vopnahlé

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Barist í Úkraínu Sjálfboðaliðar gráir fyrir járnum í bænum Peski skammt frá Dónetsk
Barist í Úkraínu Sjálfboðaliðar gráir fyrir járnum í bænum Peski skammt frá Dónetsk fréttablaðið/AP
Ekkert lát er á stríðsátökum í Úkraínu þrátt fyrir samkomulag um vopnahlé. Undanfarinn mánuð hafa þau kostað nærri 300 manns lífið og alls hafa um þúsund manns látist síðan samkomulagið var gert þann 5. september.

Átökunum hafa fylgt alvarleg mannréttindabrot á borð við pyntingar, handtökur án dóms og laga, aftökur og kynferðisofbeldi. Í nýrri skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum segir að þessi mannréttindabrot hafi verið kerfisbundin og geti talist til glæpa gegn mannkyni.

Í skýrslunni kemur fram að alls hafi átökin kostað að minnsta kosti 4.317 manns lífið frá því þau hófust um miðjan apríl. Nærri 466.830 manns hafa hrakist að heiman vegna þeirra.

Uppreisnarmenn, sem vilja aðskilnað frá Úkraínu og helst sameiningu við Rússland, hafa mánuðum saman haft borgina Dónetsk og nokkur svæði í héraðinu Lúhansk á sínu valdi.

Í skýrslunni segir að ástandið á þessum svæðum einkennist af upplausn. Uppreisnarmennirnir hafi fyrir löngu tekið lögin í sínar hendur.

Það er hópur erindreka á vegum Sameinuðu þjóðanna í Úkraínu sem hefur tekið skýrsluna saman.

Úkraínustjórn og ráðamenn á Vesturlöndum hafa sakað rússnesk stjórnvöld um stuðning við uppreisnarmennina. Rússar segja á móti að stuðningur Vesturlanda við Úkraínustjórn geri aðeins illt verra.

Tony Blinken, aðstoðarþjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjastjórnar, sagði á nefndarfundi í öldungadeild Bandaríkjaþings á miðvikudag að Bandaríkjastjórn ætti að skoða hvort ekki væri rétt að styrkja úkraínska herinn með því að senda þangað vopn.

Rússar hafa tekið illa í þessi ummæli: „Bandaríkjamenn eru á meðal þeirra sem hrundu af stað átökunum í Úkraínu, og fari þeir nú að selja þangað vopn þá munu átökin magnast,“ sagði Nikolaí Patrúsjev, ritari öryggisráðs Rússlandsforseta.

Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur ekki viljað útvega Úkraínustjórn vopn, en meðal bandarískra þingmanna er töluverður stuðningur við að það verði gert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×