Erlent

Bardagakappi með Downs heilkenni vill fá að stíga í búrið

Samúel Karl Ólason skrifar
Garrett Holeve á forsíður Miami New Times.
Garrett Holeve á forsíður Miami New Times. Mynd/Miami New Times
„Ég get þetta. Ekki abbast upp á mig,“ segir hinn 24 ára Garrett „G-Money“ Holeve. Garrett hefur æft blandaðar bardagalistir hjá American Top Team æfingabúðunum í Flórída í fjögur ár og dreymir um að berjast. Tvisvar sinnum hafa skipulagðir bardagar hans verið stöðvaðir af yfirvöldum í Flórída. Síðast var það gert í ágúst einungis mínútum áður en bardaginn átti að hefjast.

Nú ætlar Garrett að fara í mál við Flórída og búið er að stofna samtök sem heita Garrett´s fight. Þeim er ætlað að vinna að því að íþróttafólk með sérþarfir geti keppt í blönduðum bardagaíþróttum.  

Yfir 113 þúsund manns hafa skrifað undir undirskriftarlista til stuðnings Garrett.

Garrett segir að berjast í búrinu veiti honum mikla ánægju og hann ætli að berjast fyrir því að fá að keppa. Hann segist reiðubúinn til að berjast og vill fá tækifæri til þess.

Faðir Garrett, Mitch Holeve, hefur orðið fyrir mikilli gagnrýni samkvæmt Today news fyrir að leyfa honum að æfa og stunda bardagaíþrótt. Hann segir þá sem gagnrýna sig ekki hafa hitt son sinn. Hann elski blandaðar bardagalistir.

„Pabbi minn er ekki klikkaður,“ segir Garrett. „Þau eru klikkuð.“

Samtök fólks með Downs heilkenni í Bandaríkjunum standa einnig við bakið á Garrett, eins og fram kemur í tilkynningu þaðan.

Stofnunin sem heldur utan um bardaga í Flórída, þvertekur fyrir að Garrett hafi verið bannað að berjast vegna þess að hann væri með Downs heilkenni. Öll leyfi hafi einfaldlega ekki legið fyrir.

Hér að neðan má sjá frétt ESPN sjónvarpsstöðvarinnar um Garrett sem og brot úr bardaga hans frá því í febrúar í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×