Körfubolti

Baráttan um sæti í úrslitakeppninni harðnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
20. umferð Domino's-deildar karla hefst í kvöld með fjórum leikjum en þetta er þriðja síðasta umferð deildarkeppninnar. Mikil spenna ríkir á öllum vígstöðvum um deildarmeistaratitilinn, síðustu sætin í úrslitakeppninni og hvaða lið fellur með Snæfelli.

Þrjú lið hafa stungið önnur af en aðeins tvö stig skilja þau að. Öll þrjú, KR, Tindastóll og Stjarnan, spila í kvöld en eiga erfið verkefni fyrir höndum. KR tekur á móti spræku liði Keflavíkur sem hefur ekki tapað leik síðan Friðrik Ingi Rúnarsson tók við þjálfun þess og hin tvö eiga erfiða leiki á útivöllum – Stjarnan gegn Grindavík og Tindastóll gegn Skallagrími sem er í harðri fallbaráttu gegn Haukum.

Í toppbaráttunni er KR skrefinu á undan með 30 stig en hin tvö eru jöfn að stigum með 28 stig hvort.

Aðeins tvö stig skilja að liðin í 5.-9. sæti deildarinnar en átta efstu komast áfram í úrslitakeppnina. Eitt þeirra mun því sitja eftir.

Einn innbyrðisslagur verður í þessari baráttu í kvöld þegar Þór tekur á móti ÍR í Þorlákshöfn. ÍR-ingar hafa verið sjóðheitir á heimavelli og unnið sex leiki í röð í Seljaskóla. Árangurinn á útivelli er hins vegar ekkert til að hrópa húrra fyrir, þrjú töp í röð og aðeins tveir sigrar í níu leikjum alls á tímabilinu.

Þess má einnig geta að í þessari viðureign mætast tveir skemmtilegustu stuðningsmannahópar deildarinnar; Græni drekinn sem verður á heimavelli og Ghetto Hool­igans sem hafa gert allt vitlaust í Breiðholtinu að undanförnu.

Skallagrímur er sem stendur í tíunda sæti deildarinnar en gæti dottið niður í fallsæti með tapi gegn Tindastóli í kvöld ef Haukar vinna botnlið Snæfells á morgun. Nýliðarnir úr Borgarnesi voru þó hársbreidd frá því að vinna Stjörnuna í síðustu umferð.

Grindavík fer svo langt með að tryggja sér heimavallarrétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar með sigri á Stjörnunni í Mustad-höllinni suður með sjó í kvöld.

Allir leikir kvöldsins hefjast klukkan 19.15 í kvöld en viðureign KR og Keflavíkur verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×