Íslenski boltinn

Baráttan um gullskóinn: Harpa og Garðar markahæst

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/anton
Keppni í Pepsi-deildum karla og kvenna er nú hálfnuð.

Harpa Þorsteinsdóttir er á góðri leið með að tryggja sér gullskóinn hjá konunum en hún hefur skorað 13 mörk í fyrstu níu leikjum Stjörnunnar í deildinni.

Harpa hefur skorað í sjö af níu leikjum Stjörnunnar. Hún hefur gert tvær þrennur, tvær tvennur og þrisvar sinnum skorað eitt mark í leik.

Harpa skoraði 15 mörk allt tímabilið í fyrra og vantar því aðeins tvö mörk til að jafna þann árangur.

Næst kemur landsliðsfyrirliðinn Margrét Lára Viðarsdóttir en hún hefur skorað átta mörk fyrir Val. Margrét Lára fór nokkuð rólega af stað en hefur skorað sex mörk í síðustu fjórum leikjum Vals.

Sandra Stephany Mayor Gutierrez, Þór/KA, og Lauren Elizabeth Hughes, Selfossi, eru svo jafnar í 3.-4. sæti á markalistanum með sex mörk hvor.

Hjá körlunum er Skagamaðurinn Garðar Gunnlaugsson markahæstur með 10 mörk í 11 leikjum.

Garðar hefur verið funheitur að undanförnu og skorað sjö mörk í síðustu fjórum leikjum sem unnust allir.

Garðar skoraði níu mörk í 17 leikjum í fyrra og er því búinn að skora fleiri mörk í ár en hann gerði þá.

Næstur kemur Hrvoje Tokic, króatískur framherji Víkings Ó., en hann hefur gert átta mörk. Fjölnismaðurinn Martin Lund Pedersen svo í 3. sæti markalistans með sjö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×