Lífið

Barack Obama hringir óvænt inn í útvarpsþátt

Bjarki Ármannsson skrifar
Hlustendum almannaútvarps Boston-borgar í Bandaríkjunum brá heldur betur í brún fyrr í kvöld.
Hlustendum almannaútvarps Boston-borgar í Bandaríkjunum brá heldur betur í brún fyrr í kvöld. Vísir/AFP
Hlustendum almannaútvarps Boston-borgar í Bandaríkjunum brá heldur betur í brún fyrr í kvöld þegar sjálfur Barack Obama Bandaríkjaforseti hringdi óvænt inn í spjallþátt á stöðinni. Deval Patrick, fráfarandi ríkisstjóri Massachusetts, var til viðtals í þættinum og svo virðist sem forsetinn hafi ekki staðist freistinguna að stríða Patrick örlítið.

Vefmiðillinn Vox greinir frá. Obama, sem bjó í Massachusetts-ríki þegar hann lagði stund á laganám við Harvard-háskóla, hóf mál sitt á því að kvarta undan þjónustu í borginni Somerville. Hann tók þó fram að hann hafi flutt frá svæðinu fyrir nokkru.

Bandaríkjaforsetinn tók sér nokkrar mínútur í að hrósa Patrick fyrir vel unnin störf sem ríkisstjóri áður en þáttastjórnandinn Jim Braude sneri talinu að ógreiddum stöðumælasektum Obama frá námsárum hans. Obama viðurkenndi áður en hann varð forseti að hann hefði fengið sautján stöðumælasektir í Massachusetts á árunum 1988 til 1991 en aðeins borgað tvær. Miðað við svör forsetans virðist hann síðar hafa greitt þær allar.

„Veistu, ég held að ég hafi þurft að gera það þegar ég tók við embætti,“ svaraði Obama. „Annars hefði ég ekki getað stigið fæti inn í ríkið án þess að verða handtekinn.“

Hlusta má á óvænta símtalið frá forsetanum hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×