Innlent

Bannað efni undir viðmiðunarmörkum

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
PHMB er leyfilegt í snyrtivörum hér á landi sé magnið undir 0,3 prósentum af innihaldinu.
PHMB er leyfilegt í snyrtivörum hér á landi sé magnið undir 0,3 prósentum af innihaldinu. NORDICPHOTOS/GETTY
„Það eru engin parabenefni í vörum frá L’Occitane. Það er hins vegar rétt að örfáar vörur frá L’Occitane innihalda PHMB-efnið sem var flokkað í Evrópu þann 1. janúar 2015 sem Carcinogenic 2, það er efni sem gæti hugsanlega leitt til krabbameins í fólki. Í þeirri vöru frá okkur sem inniheldur mest magn þessa efnis er samt þrisvar sinnum minna magn en leyfilegt viðmiðunarmagn,“ segir Sigrún Ásgeirsdóttir, rekstrarstjóri hjá L’Occitane.

Stjórn félags lyfsala í Danmörku hvetur öll apótek í landinu til að fjarlægja strax úr hillum snyrtivörur sem innihalda PHMB-rotvarnarefnið. Það tilheyrir ekki bönnuðum parabenum eins og skilja mátti af frétt Fréttablaðsins sl. laugardag.

Sigrún segir að innihaldsefni með fyrrgreindri flokkun séu leyfð í snyrtivörum hafi þau fengið jákvætt álit hjá vísindanefndinni SCCS, Scientific Committee on Consumer Safety. „Samkvæmt síðasta áliti hennar má magn PHMB ekki vera yfir 0,3 prósentum af innihaldinu. Töluvert minna magn er notað af þessu efni í vörunum frá L’Occitane. Fyrirtækið bætir ekki sjálft þessu efni í formúlurnar, heldur er það til staðar í hrávöru sem notuð er í þær.“ Að sögn Sigrúnar bíður snyrtivöruiðnaðurinn eftir nýju áliti frá SCCS varðandi innihaldsmagn.

Gunnlaug H. Einarsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir magn PHMB undir 0,3 prósentum leyfilegt á Íslandi. „Þetta efni er leyft í magni upp að 0,3 prósentum samkvæmt okkar túlkun. Við höfum ekki túlkað það þannig að það sé bannað, eins og Danir hafa gert samkvæmt greininni í Politiken.“ 


Tengdar fréttir

Selja snyrtivörur sem innihalda efni sem ESB hefur bannað

Dönsk apótek og verslanir fjarlægja vörur með bönnuðum rotvarnarefnum úr hillum. Vörur sem innihalda bönnuð efni hafa fundist í verslunum hér. Erfitt er fyrir neytendur að fylgjast með hvaða efni eru leyfileg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×