Viðskipti erlent

Banki sem lánaði Trump 300 milljónir dollara í lykil­hlut­verki í peninga­þvætti rúss­neskra glæpa­manna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Deutsche Bank var í lykilhlutverki í umfangsmiklu peningaþvætti.
Deutsche Bank var í lykilhlutverki í umfangsmiklu peningaþvætti. vísir/Getty
Þýski bankinn Deutsche Bank sem lánaði Donald Trump 300 milljónir dollara lék lykilhlutverk í umfangsmiklu peningaþvætti sem tengist glæpastarfsemi í Rússlandi og rekja má allt til rússneskra valdhafa, að því er greint er frá á vef Guardian.

Bankinn er einn af tólf vestrænum fjármálastofnunum sem þvoðu að minnsta kosti 20 milljarða bandaríkjadala sem voru upprunnir frá glæpasamtökum og glæpamönnum í Rússlandi. Peningaþvættið var þekkt undir nafninu „Alþjóðaþvottahúsið“ og var í gangi á árunum 2010 til 2014.

Lögregluyfirvöld víða um heim rannsaka nú hvernig hópur af vel tengdum Rússum gat notað fyrirtæki sem skráð eru í Bretlandi til að þvo milljarða af reiðufé en fyrirtækin þóttust lána hvort öðru peninga og voru lánaskjölin undirrituð af forsvarsmönnum rússneskra fyrirtækja.

Frá Moldavíu til Lettlands og þaðan út um allan heim

Fyrirtækin gátu síðan ekki borgað af lánunum og fóru yfirvöld í Moldavíu þá í aðgerðir gegn þeim sem gerði rússneskum bönkum kleift að flytja miklar peningarupphæðir inn til landsins.

Þaðan fóru peningarnir síðan til Lettlands með bankanum Trasta Komercbanka en Deutsche Bank var einn af samstarfsbönkum Trasta, það er að segja Deutsche veitti þeim viðskiptavinum Trasta sem ekki voru rússneskir þjónustu sem fór að mestu fram í dollurum. Þessi þjónusta var svo notuð til að flytja peninga frá Lettlandi á bankareikninga um allan heim.

Á tímabilinu sem peningaþvættið stóð sem hæst hættu margir bankar af Wall Street störfum í Lettlands vegna gruns um að landið væri notaði í peningaþvætti, sérstaklega af Rússum.

Tengsl við Rússland viðkvæm fyrir Deutsche

Árið 2014 voru það svo að aðeins tvær vestrænars lánastofnanir, það er Deutsche Bank og þýski bankinn Commerzbank, tóku við dollurum sem áttu uppruna sinn að rekja til Lettlands. Deutsche hætti svo að eiga viðskipti við Tresta í september árið 2015 og sex mánuðum var Tresta lokað af yfirvöldum í Lettlandi.

Tengsl við Rússland eru sérstaklega viðkvæm fyrir Deutsche Bank, ekki síst í ljósi þess að í febrúar var greint frá því að bankinn hefði leynilega farið yfir öll lán sem hann hafði veitt Trump Bandaríkjaforseta á sínum tíma til að ganga úr skugga um hvort að þar væri að finna einhver tengsl við Rússa.

Deutsche hefur ekkert viljað gefa upp um hvað kom út úr þeirri innanhússrannsókn en Trump skuldar bankanum 300 milljónir bandaríkjadala eins og áður segir. Samkvæmt heimildum Guardian fundust hins vegar engin tengsl milli lánanna til Trump og Rússlands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×