Viðskipti innlent

Bankastjóri Landsbankans ræddi við sparisjóðsfólk um samrunann

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
,,Við upplýstum fundarmenn um breytta stöðu,“ segir Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans.
,,Við upplýstum fundarmenn um breytta stöðu,“ segir Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans. VÍSIR/ÓSKAR.P.FRIÐRIKSSON
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, fór til Vestmannaeyja í gær ásamt nokkrum stjórnendum bankans og fundaði með starfsfólki fyrrum Sparisjóðs Vestmannaeyja, stærstu stofnfjárhöfum og stjórn hagsmunasamtaka eldri stofnfjárhluthafa.

Fundurinn snerist um samruna Landsbankans og Sparisjóðs Vestmannaeyja sem tók gildi í fyrradag. „Það voru margar spurningar og þetta voru góðar umræður,“ segir Steinþór og bætir við að ástæða fundarins hafi fyrst og fremst verið að sýna starfsfólki og stofnfjárhöfum Sparisjóðsins virðingu og upplýsa þau um stöðuna.

Með samrunanum urðu allir starfsmenn sparisjóðsins starfsmenn Landsbankans. Landsbankinn tók þar með yfir allar eignir og skuldbindingar Sparisjóðs Vestmannaeyja, þar með talið útlán og innlán viðskiptavina.

„Við gerðum grein fyrir atburðarás síðustu daga og upplýstum fundarmenn um breytta stöðu. Við munum svo fylgja þessu eftir með frekari upplýsingum til þeirra sem áttu Sparisjóðinn áður, sem nú eru hluthafar í bankanum,“ segir Steinþór. „Starfsmenn og stofnfjárhafar kunnu vel að meta að það væri upplýst en skilja ekki hvernig staða Sparisjóðsins hefur breyst.“

Fyrst um sinn verður starfsemi sparisjóðsins óbreytt. Þá eru netbankar aðgengilegir eins og verið hefur. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×