Erlent

Bandarískur ráðherra ræddi um svínamykju í rússnesku símaati

Kjartan Kjartansson skrifar
Perry sagði grínistunum meðal annars að hann vonaði að brotthvarf Bandaríkjamanna frá Parísarsamkomulaginu skaðaði ekki samband þeirra við Úkraínumenn.
Perry sagði grínistunum meðal annars að hann vonaði að brotthvarf Bandaríkjamanna frá Parísarsamkomulaginu skaðaði ekki samband þeirra við Úkraínumenn. Vísir/AFP
Rick Perry, orkumálaráðherra Bandaríkjanna, ræddi fjálglega um aukinn útflutning á kolum til Úkraínu og svínamykju við þann sem hann taldi vera forsætisráðherra Úkraínu á dögunum. Í raun var hann hins vegar fórnarlamb símahrekks rússneskra grínista.

Hrekkjalómarnir Vladimír Krasnov og Alexei Stolyarov eru þekktir fyrir að gabba stjórnmálamenn og frægt fólk. Þeir göbbuðu meðal annars Elton John, söngvarann knáa, sem taldi sig ræða við Vladimír Pútín, forseta Rússlands, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Símtal þeirra við Perry í síðustu viku stóð yfir í rúmar tuttugu mínútur. Ræddu þeir meðal annars um refsiaðgerðir Bandaríkjastjórnar gegn Rússum og vinnslu olíu og gass í Úkraínu.

Upptakan af símaatinu var birt í heild sinni á rússneskri vefsíðu.

Lífeldsneyti úr heimabruggi og svínamykju

Sagðist Perry meðal annars andsnúinn Nord Stream 2-gasleiðslunni sem Rússar vilja leggja um Eystrasalt til Evrópu og lýsti yfir vilja til að veita Úkraínumönnum tæknilega aðstoð til að vinna jarðgas.

„Ég held að það séu í allra þágu að gefa Úkraínu fleiri möguleika með tækninni okkar fyrir utan Rússa en það er allt í lagi,“ sagði Perry meðal ananrs við grínistana.

Gaf Perry einnig í skyn að Bandaríkin myndu auka útflutning sinn á kolum til Úkraínu.

„Forsætisráðherra“ Úkraínu lýsti aftur á móti nýrri tækni í orkunýtingu fyrir Perry en hún átti að felast í því að blanda saman heimabruggi og svínamykju. Perry sagðist vilja fá frekar upplýsingar um þróun lífræna eldsneytisins, að því er kemur fram í Washington Post.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×