Erlent

Bandarískur læknir laus við ebóluveiruna

Atli Ísleifsson skrifar
Læknirinn Kent Brantly starfaði í Líberíu þar sem hann vann að því að stöðva útbreiðslu ebóluveirunnar.
Læknirinn Kent Brantly starfaði í Líberíu þar sem hann vann að því að stöðva útbreiðslu ebóluveirunnar. Vísir/AFP
Bandaríski læknirinn Kent Brantly, sem smitaðist af ebóluveiru í Líberíu í síðasta mánuði, verður útskrifaður af sjúkrahúsi í Atlanta í Bandaríkjunum síðar í dag eftir að blóðprufur gáfu til kynna að hann væri laus við veiruna.

Læknar í Bandaríkjunum gerðu tilraunir með að gefa Brantly blóð úr sjúklingi sem lifði af ebólasmit, í þeirri von að blóðgjöfin yrði til þess að hann myndi mynda mótstöðu gegn veirunni. Þá var honum einnig gefið tilraunalyfið ZMapp.

Fréttamannafundur verður haldinn á sjúkrahúsinu síðar í dag þar sem Brantly mun lesa yfirlýsingu og læknar segja frá bataferlinu.

Brantly og bandaríski trúboðinn Nancy Writebol, smituðust bæði af ebólu í lok júlímánaðar og voru flutt til Bandaríkjanna 5. ágúst. Writebol er enn haldið í einangrun á sjúkrahúsinu í Atlanta, en á fréttamannafundinum verður einnig sagt frá líðan hennar.

Í frétt CNN segir að Brantly og Writebol, auk þriggja heilbrigðisstarfsmanna í Líberíu, hafi öllum verið gefið tilraunalyfið ZMapp og virðast þau öll vera á batavegi.

Brantly starfaði fyrir samtökin Samaritan's Purse í Líberíu og sagðist forseti samtakanna, prédikarinn Franklin Graham,vera mjög ánægður með að Brantly skuli hafa jafnað sig.


Tengdar fréttir

Skorað á WHO að útvega Afríku ebólalyf

Sérfræðingar segja að til séu nokkur mismunandi lyf og bóluefni sem hægt væri að nota til þess að berjast gegn þessum illskeytta sjúkdómi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×