Erlent

Bandarískir stjórnmálamenn hafi viljað fórna milliríkjasambandinu á altari eigin frama

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Rússlandsforseti kvartar yfir bandarískum stjórnmálamönnum sem hafi reynt að grafa undan sambandi Rússlands og Bandaríkjanna.
Rússlandsforseti kvartar yfir bandarískum stjórnmálamönnum sem hafi reynt að grafa undan sambandi Rússlands og Bandaríkjanna. Vísir/getty
Vladimir Pútín, forseti Rússlands, sakar „bandarísk öfl“ um að reyna að grafa undan og gera lítið úr þeim árangri sem hafi náðst á leiðtogafundinum í Helsinki með Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.

Fréttastofa Reuters hefur eftir Rússlandsforseta að ýmsir bandarískir stjórnmálamenn hafðu reynt að grafa undan sambandi Rússlands og Bandaríkjanna til að þjóna eigin hagsmunum og til að hljóta framgang innan stjórnmálaflokka.

Þetta sagði Pútín í ræðu í höfuðborg Rússlands í dag á fundi með sendiherrum. Hann sagði að leiðtogafundurinn, sem fór fram í Helsinki í Finnlandi, hefði gengið vel og að leiðtogarnir tveir hefðu unnið að því að styrkja tengsl þjóðanna. 

„Fundurinn gekk, heilt yfir, vel og leiddi til þess að við komumst að ákveðnu samkomulagi. Við munum, að sjálfsögðu, sjá til hvernig þetta þróast,“ sagði Pútín sem fékkst ekki til þess að greina nánar frá þeirri niðurstöðu sem þjóðarleiðtogarnir eiga að hafa sæst á.

Hann segir að þrátt fyrir að fundurinn hafi gengið vel sé það ljóst að ákveðin öfl innan Bandaríkjanna gefi ekki mikið fyrir milliríkjasamband Rússlands og Bandaríkjanna. Pútín segir það gefa augaleið að það séu hátt settir einstaklingar í Bandaríkjunum sem veigri sér ekki við að fórna hagsmunum landsins alls á altari eigin frama sem einskorðist við hinn flokkspólitíska vettvang.

Vill hlúa að sambandi ríkjanna

Pútín segir að þrátt fyrir að leiðtogarnir hefðu stigið fyrstu skrefin í átt til farsælla milliríkjasambands væri enn langt í land og skyldi engan undra, segir Pútin, að leiðtogarnir hefðu ekki getað leyst öll vandamál sem hefðu komið upp á undanförnum árum og áratugum á leiðtogafundi þeirra í Helsinki.


Tengdar fréttir

Trump segist hafa mismælt sig

Forsetinn segist trúa niðurstöðum leyniþjónusta Bandaríkjanna um afskipti Rússlands af forsetakosingunum 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×