Erlent

Bandarískir kjósendur ósáttir við útnefningarferli flokkanna

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Mikill stuðningur er við kröfur Bernie Sanders um breytingar á útnefningarferli flokkanna tveggja.
Mikill stuðningur er við kröfur Bernie Sanders um breytingar á útnefningarferli flokkanna tveggja. Nordicphotos/AFP
Bandaríkjamönnum þykir margt athugavert við hið ógnarlanga ferli við val forsetaefna Repúblikanaflokksins og Demókrataflokksins.

Um 70 prósent Bandaríkjamanna eru pirruð á skipulaginu sem flokkarnir tveir hafa við val á forsetaefnum sínum, rúmlega helmingur þeirra er hreinlega reiður en aðeins um 13 prósent eru stolt af því sem er að gerast.

Flestir, eða 65 prósent, segjast þó hafa áhuga á kosningunum og 23 prósent segjast spennt.

Þetta kemur fram í skoðanakönnun, sem bandaríska fréttastofan AP lét gera í samvinnu við NORC-rannsóknarstofnunina við Chicago-háskóla.

AP segir þetta sýna breiðan stuðning við kröfur Bernie Sanders um að breytingar verði gerðar á forkosninga- og útnefningarferlinu öllu.

Athygli vekur að nærri helmingur demókrata telur að framboð Sanders hafi góð áhrif á Demókrataflokkinn, en einungis þriðjungur repúblikana telur að framboð Donalds Trump hafi góð áhrif á Repúblikanaflokkinn.

Þá segja 29 prósent demókrata að þeirra eigin flokkur sé ekki nógu opinn fyrir nýjum hugmyndum, en um 46 prósent repúblikana segja hið sama um Repúblikanaflokkinn.

Almennt vilja kjósendur opnar forkosningar frekar en lokaðar, þeir vilja forkosningar frekar en kjörfundi og svo hafa þeir litla trú á ofurfulltrúunum svonefndu, sem ráða miklu um niðurstöðuna.

Þá sýnir könnunin einnig að almennt hafa Bandaríkjamenn litla trú á opinberum stofnunum. Mest er traustið reyndar í garð hersins, því 56 prósent segjast hafa mikla trú á honum. Hins vegar segjast aðeins fjögur prósent hafa mikla trú á þinginu og tíu prósent segjast hafa mikla trú á bandaríska stjórnmálakerfinu.

Nærri því fjörutíu prósent segja tveggja flokka kerfið, sem tryggt hefur Demókrataflokknum og Repúblikanaflokknum öll völd í Bandaríkjunum, vera meingallað. Einungis þrettán prósent eru sátt við þetta tveggja flokka kerfi, en fimmtíu prósent segja kerfið vera gallað, en þó ekki svo mjög að ekki megi bæta þar úr.

Könnunin var gerð 12. til 15. maí í öllum ríkjum Bandaríkjanna.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. júní


Tengdar fréttir

Trump búinn að ná meirihluta

Nánast öruggt þykir að hann muni komast hjá miklum deilum á flokksþingi Repúblikana í júlí.

Trump í vanda vegna vafasamra viðskipta FL Group

Fimmtíu milljón dollara fjárfesting FL Group í alþjóðlega fasteignafélaginu Bayrock Group árið 2007 gæti reynst forsetaframbjóðandanum Donald Trump erfiður ljár í þúfu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×