Körfubolti

Bandaríska liðið fór taplaust í gegnum A-riðilinn

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Bandaríska landsliðið í körfubolta í karlaflokki vann nauman 100-97 sigur á Frakklandi í lokaleik liðsins í A-riðli Ólympíuleikanna í Ríó en bandaríska liðið sem hefur titil að verja var þegar búið að tryggja sér toppsæti riðilsins fyrir leik dagsins.

Þrátt fyrir það tefldi Mike Krzyzewski, þjálfari bandaríska liðsins, sterku liði fram og fengu stórstjörnurnar litla hvíld gegn öflugu liði Frakka.

Bandaríska liðið hafði undirtökin í leiknum framan af og leiddi allan leikinn en liðið var með níu stiga forskot í hálfleik 55-46. Munurinn fór upp í tólf stig fyrir lokaleikhlutann en góð rispa franska liðsins undir lok fjórða leikhluta hleypti spennu í þetta á ný.

Náði franska liðið að minnka muninn niður í þrjú stig en lengra komust þeir ekki og fögnuðu bandarísku leikmennirnir því sigri fimmta leikinn í röð gegn sterku liði Frakklands.

Klay Thompson var að hitta afskaplega vel í bandaríska liðinu en hann hittir úr sex af sjö þriggja stiga skotum sínum í leiknum og var alls með 30 stig en Kevin Durant bætti við sautján stigum.

Í franska liðinu voru það Nando del Colo og Thomas Heurtel sem voru stigahæstir með 18 stig hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×