Erlent

Bandarísk vopn í höndum IS

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Harðir bardagar hafa staðið yfir við borgina Kobani síðustu vikur.
Harðir bardagar hafa staðið yfir við borgina Kobani síðustu vikur. Vísir/Getty
Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur viðurkennt að afar líklegt sé að vopn sem ætluð voru Kúrdum sem berjast við bæinn Kobani hafi endað í höndum hryðjuverkasamtakanna Íslamskt ríki (IS).

Bandaríkjamenn sendu vopnapakka til Kúrda sem kastað var úr flugvélum en einn pakkinn virðist hafa komist í hendur íslamskra vígamanna. Varnarmálaráðuneytið kennir vindi um að hafa feykt pakkanum af leið en segir að vopnin sem voru í honum séu ekki þess eðlis að þau skipti sköpum fyrir IS.

Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, gagnrýndi vopnasendingar Bandaríkjamanna, og sagði það rangt að vopn skyldu bæði hafa lent hjá IS og Kúrdum sem berjast við samtökin. Erdogan sagði vopnasendingar ekki skila tilætluðum árangri.

Tyrkland lítur á Kúrdana sem berjast við IS sem fulltrúa sýrlenska arms Verkamannaflokks Kúrdistan, sem barist hefur fyrir sjálfstjórn innan Tyrklands seinustu þrjá áratugina.

IS gerði stórsókn gegn Kúrdum í Kobani á mándaginn, en verjendum tókst að brjóta hana á bak aftur með hjálp loftárása frá Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra. Bardagar hafa staðið yfir svo vikum skiptir og hafa flestir óbreyttir borgarar flúið til Tyrklands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×