Viðskipti innlent

Bandarísk tæknifyrirtæki eiga í erfiðleikum með að ná fótfestu í Kína

Sæunn Gísladóttir skrifar
Í síðasta mánuði tilkynntu forsvarsmenn Uber að ákveðið hefði verið að selja kínverska starfsemi þess út af erfiðleikum við að ná fótfestu í Kína.
Í síðasta mánuði tilkynntu forsvarsmenn Uber að ákveðið hefði verið að selja kínverska starfsemi þess út af erfiðleikum við að ná fótfestu í Kína. Vísir/Getty
Bandarískum tæknifyrirtækjum hefur gengið illa að fóta sig á kínverskum markaði. Forsvarsmenn streymiþjónustunnar Netflix lýstu því yfir á dögunum að fyrirtækinu hefði ekki tekist að sigra kínverska markaðinn. Netflix er það síðasta í röð fyrirtækja sem ekki hafa náð að stimpla sig inn í Kína vegna erfiðra reglugerða og mikillar samkeppni.

Ákveðið hefur verið að bjóða ekki þjónustu Netflix í Kína en í staðinn mun Netflix veita kínverskum streymiþjónustum aðgang að efni sínu. Þannig verði hægt að koma með það á kínverskan markað.

MarketWatch greinir frá því að Kína sé stærsti erlendi viðskiptamarkaðurinn fyrir bandarísk fyrirtæki sem vilja í auknum mæli njóta góðs af viðskiptum á þessu risasvæði. Regluverk og lagarammi í Kína hefur verið gagnrýnt fyrir að vera ekki í takt við vaxandi efnahagskerfið, og hefur það umhverfi verið þrándur í götu erlendra fyrirtækja sem vilja sækja fram í Kína.

Samkvæmt skýrslu kínversk-bandaríska viðskiptaráðsins sögðu 67 prósent aðspurðra að stefna yfirvalda og regluverkið hefði mest áhrif á fimm ára áætlanir þeirra. Einnig hefur reynst erfitt að fá tilskilin leyfi og að ráða starfsmenn.

Fyrirtæki, á borð við Uber og eiganda KFC og Pizza Hut hafa hætt við starfsemi sína í Kína út af erfiðleikum í viðskiptaumhverfinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×