Erlent

Bandaríkjaþing tekur fyrstu skrefin í átt að afnámi Obamacare

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Leiðtogi Repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, Paul Ryan, í þinghúsinu í dag.
Leiðtogi Repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, Paul Ryan, í þinghúsinu í dag. vísir/epa
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur tekið fyrstu skrefin í átt að því að afnema Obamacare, lög sem sett voru í tíð Barack Obama, fráfarandi Bandaríkjaforseta, og miðuðu að því að gera ýmsar endurbætur á heilbrigðiskerfi landsins.

Er þetta í samræmi við það Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í öldungadeild, sagði í byrjun desember en þá boðaði hann að þingið myndi strax í janúar byrja að afnema löggjöfina. Repúblikanar eru með meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings og þá er verðandi forseti, Donald Trump, einnig Repúblikani. Hann talaði mikið gegn Obamacare í kosningabaráttu sinni og sagði að hann myndi afnema löggjöfina næði hann kjöri.

Þessi fyrstu skref sem Bandaríkjaþing hefur tekið fela í sér lagasetningu sem gerir Repúblikönum auðveldara en ella að afnema lykilþætti í Obamacare. Lögin voru samþykkt bæði í fulltrúadeildinni og öldungadeildinni í vikunni og nánast algjörlega eftir línum flokkanna; Repúblikanar með og Demókratar á móti.

Ýmsir innan Repúblikanaflokksins hafa þó lýst yfir áhyggjum af því hvað eigi að koma í staðinn og eins og gefur að skilja eru Demókratar afar ósáttir en Obamacare veitti 20 milljónum manna aðgang að bandaríska heilbrigðiskerfinu sem hafði hann ekki áður.

Hvernig þetta fólk mun sækja sér heilbrigðisþjónustu þegar löggjöfin hefur verið afnumin er óljóst en Repúblikanar hafa sagt að þeir vilji setja nýrri og betri lög í staðinn.

„Repúblikanar tala um að þeir ætli að „afnema“ og „setja í staðinn“ – það er áhugavert en ekki raunhæft. Þeir hafa haft tækifæri í sex ár til að koma með tillögur að einhverju betra en við höfum ekki séð neitt,“ sagði Nancy Pelosi leiðtogi Demókrata í fulltrúadeildinni.


Tengdar fréttir

Bandaríkjaþing byrjar að afnema Obamacare strax í janúar

Bandaríkjaþing mun hefjast handa við það að afnema Obamacare strax í janúar á næsta ári. Þetta kom fram í ræðu sem Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings, hélt í heimaborg Louisiana í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×