Erlent

Bandaríkjaþing samþykkir Zinke sem innanríkisráðherra

Atli Ísleifsson skrifar
Ryan Zinke hefur átt sæti á Bandaríkjaþingi fyrir Montana.
Ryan Zinke hefur átt sæti á Bandaríkjaþingi fyrir Montana. Vísir/AFP
Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í dag fulltrúardeildarþingmanninn Ryan Zinke sem nýjan innanríkisráðherra Bandaríkjanna. 68 þingmenn greiddu atkvæði með, en 31 gegn.

Hinn 55 ára Zinke hefur áður heitið því að endurskoða þær takmarkanir sem Obama-stjórnin setti á olíu- og gasboranir í og í kringum Alaska.

Zinke hefur einnig sagt að hann sé ekki sammála Trump og öðrum efasemdarmönnum þegar kemur að loftslagsmálum. Telur hann loftslagsbreytingarnar raunverulegar en að hægt sé að ræða þátt mannsins í þeim.

Ryan Zinke hefur áður gegnt yfirmannsstöðu í sérsveit bandaríska sjóhersins, Navy Seal.

Bandaríkjaþing hefur nú staðfest sextán af þeim 21 sem Trump hefur tilnefnt til að gegna ráðherraembætti í ríkisstjórn sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×