Erlent

Bandaríkjastjórn segir ISIS seka um þjóðarmorð

Atli Ísleifsson skrifar
John Kerry segir að ISIS hafi einnig gerst sek um glæpi gegn mannkyni og þjóðarhreinsanir.
John Kerry segir að ISIS hafi einnig gerst sek um glæpi gegn mannkyni og þjóðarhreinsanir. Vísir/AFP
Bandaríkjastjórn hefur sakað hryðjuverkasamtökin ISIS um þjóðarmorð á jasídum, kristnum og sjía-múslímum í Írak og Sýrlandi.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, greindi frá þessu fyrr í dag þar sem hann kallaði samtökin „Daesh“. Sagði hann nauðsynlegt að kalla glæpina réttum nöfnum en að mikilvægast væri að stöðva vígamenn samtakanna.

Í frétt BBC er haft eftir Kerry að samtökin hafi einnig gerst sek um glæpi gegn mannkyni og þjóðarhreinsanir.

ISIS hafa verið sökuð um fjöldamorð og aðra glæpi í þeim tilgangi að ná yfirráðum yfir stórum landsvæðum í Írak og Sýrlandi.

Kerry segir hafa reynst erfitt að taka saman heildstæða mynd af glæpum ISIS. Nú segi hann þó samtökin hafa gerst sek um þjóðarmorð eftir að hafa safnað saman upplýsingum frá fjölda heimildarmanna.

Utanríkisráðherrann kallar eftir að fram fari óháð rannsókn á glæpum ISIS-samtakanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×