Erlent

Bandaríkjamenn opna sendiráð í Jerúsalem strax í maí

Kjartan Kjartansson skrifar
Ákvörðun Trump um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels hefur valdið mótmælaöldu hjá ósáttum Palestínumönnum.
Ákvörðun Trump um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels hefur valdið mótmælaöldu hjá ósáttum Palestínumönnum. Vísir/AFP
Sendiráð Bandaríkjanna í Ísrael verður flutt til Jerúsalem í maí, að sögn talskonu bandaríska utanríkisráðuneytisins. Ákvörðunin um flutning sendiráðsins hefur vakið harðar deilur og er hann talinn geta ógnað friðarviðræðum Ísraela og Palestínumanna.

Heather Nauert, talskona utanríkisráðuneytisins, segir að sendiráðið verði opnað í Jerúsalem í maí svo opnun hittist á við sjötugsafmæli Ísraelsríkis, að því er segir í frétt Politico. Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, sagði að sendiráðið opnaði þar „fyrir árslok“ þegar hann heimsótti Ísrael í síðasta mánuði.

Palestínumenn og arabaríki hafa lagst eindregið gegn ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun sem var beint gegn ákvörðuninni í desember.

Bæði Ísraelar og Palestínumenn gera tilkall til Jerúsalem. Ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að viðurkenna borgina sem höfuðborg Ísraels gæti torveldað tveggja ríkja lausn á deilunni fyrir botni Miðjarðarhafs.


Tengdar fréttir

Íslandi ekki boðið í teiti Bandaríkjanna

Sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þóðunum hefur sent út boðskort þar sem fulltrúum nokkurra ríkja heims er boðið í samkvæmi snemma í janúar.

Bandaríkin munu ekki gleyma árás allsherjarþingsins

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktaði gegn ákvörðun Bandaríkjaforseta um sendiráðsflutninga til Jerúsalem. Bandaríkjamenn hóta því að skera á fjárstuðning og Ísraelar segja þingið lygasamkundu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×