Erlent

Bandaríkjamaður flaug vélinni sem hvarf

Atli Ísleifsson skrifar
Paul Eriksmoen var að fljúga Cessna-vél til Kulusuk á austurströnd Grænlands.
Paul Eriksmoen var að fljúga Cessna-vél til Kulusuk á austurströnd Grænlands. Vísir/Pjetur
34 ára Bandaríkjamaður, Paul Eriksmoen, flaug flugvélinni sem fór frá Keflavík á fimmtudaginn í síðustu viku og hvarf skömmu áður en hún átti að lenda á flugvellinum í Kulusuk á austurströnd Grænlands.

Í frétt Wday kemur fram að faðir Eriksmoen segi að sonur sinn hafi verið að fljúga vélinni einn frá Íslandi til Grænlands og lent í vélarvandræðum. Vélin var ekki með ratsjá og hefur leit enn ekki borið árangur.

Curtis Eriksmoen, faðir Pauls, segir að Paul hafi unnið fyrir flugvélaframleiðendur við að fljúga vélum til viðskiptavina. Í þessu tilviki hafi hann verið að fljúga Cessna-vél til Kulusuk og var búist við að hann kæmi þangað síðdegis á fimmtudaginn.

Óljóst er hvort vélinni hafi verið nauðlent á vatni eða landi, en björgunarþyrlur og þota danska flughersins hafa meðal annars verið notaðar við leitina.

Í fréttinni segir að Paul fæddist í borginni Bismarck í Norður-Dakota, en alist upp í Sioux City í Iowa-ríki. Hann hlaut háskólagráðu frá Kansas-háskóla, er giftur og barnlaus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×