Erlent

Bandaríkin teljast ekki lengur vera fullnuma lýðræðisríki

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Bandaríkin flokkast nú sem gallað lýðræðisríki, samkvæmt mælikvörðum EIU.
Bandaríkin flokkast nú sem gallað lýðræðisríki, samkvæmt mælikvörðum EIU. Vísir/EPA
Samkvæmt nýjustu skýrslu breska rannsóknafyrirtækisins Economist Intelligence Unit (EIU), fyrir árið 2016, geta Bandaríkin ekki lengur talist vera fullnuma lýðræðisríki. Hægt er að nálgast skýrsluna hér.

EIU notar fimm flokka til þess að meta heilbrigði lýðræðis í ríkjum heimsins. EIU metur þannig framkvæmd kosninga í hverju ríki fyrir sig, frelsi borgara, stjórnmálaþátttöku og stjórnmálamenningu, auk þess sem fyrirtækið metur hversu virkar og starfhæfar stofnanir ríkisins eru.

Með þessum hætti flokkar EIU ríki heims í fernt; í fullnuma lýðræðisríki, í gölluð lýðræðisríki, í blönduð ríki og loks í einræðisríki.

Til þess að flokkast sem fullnuma lýðræðisríki þurfa ríki að vera með 8,0 stig á kvörðum EIU.

Bandaríkin voru með 8,05 stig árið 2015 en samkvæmt nýjustu skýrslu EIU er landið með 7,98 stig eftir árið 2016 og teljast Bandaríkin því nú vera gallað lýðræðisríki, í fyrsta skipti.

Samkvæmt mælikvörðum EIU eru gölluð lýðræðisríki svokölluð ríki þar sem fara fram frjálsar kosningar, sem líða þrátt fyrir það fyrir veikar stofnanir, óþroskaða stjórnmálamenningu og lága stjórnmálaþátttöku almennings.

Önnur ríki sem einnig flokkast undir gölluð lýðræðisríki samkvæmt stöðlum EIU, eru til að mynda Japan, Frakkland, Singapúr, Suður-Kórea og Indland.

Að sögn skýrsluhöfunda EIU er þó ekki hægt að kenna orðum og gjörðum nýkjörins forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, um hrakandi lýðræði í landinu, en Bandaríkin hefðu fengið færri stig jafnvel ef engar kosningar hefðu verið haldnar árið 2016.

Er um að kenna að almenningur í Bandaríkjunum treystir stofnunum þar í landi, stjórnmálaflokkum og kjörnum fulltrúum, í stöðugt minna mæli.

Ísland er í öðru sæti á lista EIU fyrir árið 2016, rétt á eftir Noregi og telst því vera fullnuma lýðræðisríki. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×