Golf

Bandaríkin sigurvegarar á heimavelli í Ryder-bikarnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Patrick Reed vann Rory McIlroy í frábærri viðureign og fagnaði gríðarlega.
Patrick Reed vann Rory McIlroy í frábærri viðureign og fagnaði gríðarlega. vísir/getty
Bandaríska sveitin hafði betur gegn Evrópu í Ryder-bikarnum í golfi sem lauk rétt í þessu en þetta er í fyrsta skiptið síðan 2008 sem Bandaríkin hafa betur í þessu sögufræga golfmóti.

Bandaríska liðið sem lék á heimavelli setti tóninn snemma á föstudaginn og náði fjögurra stiga forskoti en Evrópubúum tókst að minnka það niður í þrjú stig fyrir lokadaginn.

Evrópska sveitin byrjaði betur í dag og var um tíma með yfirhöndina í sex einvígum á meðan bandaríska sveitin var aðeins yfir í einu en það voru sviptingar eftir því sem leið á hringinn.

Eftir því sem leið á hringinn náði bandaríska sveitin að vinna sig hægt og bítandi inn í leikinn. Seinni ráshóparnir voru að spila vel á meðan fyrri hluti bandarísku sveitarinnar var að vinna upp forskot Evrópubúa.

Henrik Stenson nældi í fyrsta vinninginn gegn Jordan Spieth en Patrick Reed svaraði um hæl á næstu holu í einvíginu gegn Rory McIlroy.

Bandaríska sveitin heldur inn á völl til að fagna sigrinum.Vísir/Getty
Rafa Cabrero og Thomas Pieters minnkuðu muninn niður í einn vinning fyrir Evrópu en seinustu ráshópar Bandaríkjanna héldu áfram að spila fanta gott golf, sérstaklega á flötunum.

Brooks Koepka kláraði sitt einvígi snemma þegar fjórar holur voru eftir og eftir sigur Brandt Snedeker gegn Andy Sullivan var ljóst að bandaríska liðið þurfti aðeins einn sigur úr síðustu fjórum viðureignunum.

Það var síðan Ryan Moore sem tryggði endanlega sigurinn með því að vinna síðustu þrjár holurnar gegn Lee Westwood og tryggja Bandaríkjamönnum sigurinn.

Dustin Johnson og Zach Johnson kláruðu báðir einvígi sín en Martin Kaymer tókst að bjarga stigi fyrir Evrópubúa í síðasta ráshóp Ryder-bikarsins.

Eru það því Bandaríkjamenn sem eru Ryder-bikarmeistarar í ár eftir þrjá sigra Evrópu í röð en næsta mót fer fram í Frakklandi 2018.

Rose slær úr glompunni inn á flötina á 16. braut.Vísir/Getty
Staðan: Bandaríkin 17 - 11 Evrópa

Staðan í viðureignum dagsins:

Patrick Reed - Rory McIlroy | Patrick Reed vinnur leikinn 1&0 fyrir Bandaríkin

Jordan Spieth - Henrik Stenson | Stenson vinnur leikinn 3&2 fyrir Evrópu

J.B. Holmes - Thomas Pieters | Thomas Pieters vinnur leikinn 3&2 fyrir Evrópu

Rickie Fowler - Justin Rose |  Rickie Fowler vinnur leikinn 1&0 fyrir Bandaríkin

Jimmy Walker - Rafa Cabrera | Rafa Cabrera vinnur leikinn 3&2 fyrir Evrópu

Phil Mickelson - Sergio Garcia | Leikurinn endar með jafntefli

Ryan Moore - Lee Westwood | Ryan Moore vinnur leikinn 1&0 fyrir Bandaríkin

Brandt Snedeker - Andy Sullivan | Brandt Snedeker vinnur 3&1 fyrir Bandaríkin

Dustin Johnson - Chris Wood | Dustin Johnson vinnur leikinn 1&0 fyrir Bandaríkin

Brooks Koepka - Danny Willett | Brooks Koepka vinnur 5&4 fyrir Bandaríkin

Matt Kuchar - Martin Kaymer | Martin Kaymer vinnur 1&0 fyrir Evrópu

Zach Johnson - Matt Fitzpatrick | Zach Johnson vinnur 4&3 fyrir Bandaríkin

21.26
Dustin Johnson setur niður stutt pútt fyrir sigri í sínum leik og nær í sautjánda stig Bandaríkjamanna. Aðeins Kaymer og Kuchar eftir á átjándu

21.20
Zach Johnson hefur betur gegn Matt Fitzpatrick 4&3. Aðeins tveir ráshópar eftir á sautjándu og átjándu.

21.14 Skemmtilegt skot rétt í þessu af Bubba Watson sem táraðist af gleði þegar sigurinn var í höfn en þessi litríki kylfingur komst ekki í bandaríska liðið.

21.14 Þó þetta sé formlega klárt þá þarf að klára síðustu viðureignirnar. En Bandaríkin eru meistarar. Það breytist ekkert.

21.09 Ryan Moore fullkomnar endurkomuna gegn Lee Westwood með því að vinna síðustu holuna. Hann var tveimur undir en vann þrjár síðustu holurnar. Hann nær í þennan vinning sem Bandaríkjunum vantaði. Bandaríkin eru Ryder-bikar meistarar 2016! Þetta er í fyrsta sinn síðan 2008 sem Bandaríkin vinna en Evrópa vann síðustu þrjá Ryder-bikara.

21.04 Snedker tekur Andy Sullivan örugglega og kemur Bandaríkjunum enn þá nær þessu. Heimamönnum vantar bara hálfan vinning. Martin Kaymer er kominn yfir gegn Kuchar en líklega skiptir það engu.

20.56 Magnaðri viðureign Phil Mickelson og Sergio Garcia lýkur með jafntefli. Mickelson með geggjað pútt niður brekku á 18. flöt. Aldursforsetinn flottur. Bandaríkjunum vantar einn og hálfan vinning en annars staðar er Kaymer búinn að jafna gegn Kuchar og Ryan Moore er búinn að vinna upp tveggja holu forskot Lee Westwood. Bandaríkin nálgast.

Dagurinn var afskaplega þægilegur hjá Brooks Koepka.vísir/getty
20.46 Brooks Koepka kórónar frábæra frammistöðu sína á Ryder-bikarnum með því að rústa Masters-meistaranum Danny Willett. Bandaríkin tveimur vinningum frá sigri í Rydernum!

20.38 Justin Rose fær ágætis tækifæri til að hirða hálfan vinning á 18. flöt gegn Fowler en hann er búinn að pútta hræðilega í dag og heldur því áfram. Par hjá Fowler er nóg og Bandaríkin fá annan vinning dagsins. Heimamönnum vantar þrjá vinninga til viðbótar.

20.34 Sergio Garcia jafnar við Mickelson á 16. holu með fallegu golfi. Gerir allt rétt á par fimm holunni og fær fugl. Koepka er kominn fimm yfir gegn Willett. Þetta er bara slátrun.

20.27 Þriðji vinningur Evrópu dettur í hús. Spánverjinn Rafa Cabrero pakkar Jimmy Walker saman. Munurinn aðeins einn vinningur á liðunum en Bandaríkin eru yfir í sex leikjum og þurfa fjóra vinninga til viðbótar.

20.18 Já, einmitt, Zach Johnson! Hættu þessu! Bandaríkjamaðurinn saltar niður einu tíu metra pútti og kemst tvo yfir gegn Fitzpatrick. Heimamenn rosalegir á flötunum í dag.

20.14 Rickie Fowler tekur sextándu holuna gegn Justin Rose og er einum yfir þegar tvær eru eftir. Gæti dottið inn góður sigur þar hjá Bandaríkjamönnum.

Davis Love III, fyrirliði bandaríska liðsins, fylgist með ásamt eiginkonu sinni, Robin.vísir/getty
20.10 Talandi um nýliða. Brooks Koepka er að ganga frá Masters-meistaranum Danny Willett. Bandaríkjamaðurinn er búinn að vinna fjórar holur af síðustu fimm og er fjórum yfir.

20.07 Nýliðinn Thomas Pieters hefur betur gegn J.B. Holmes og það frekar örugglega. Holmes byrjaði frábærlega en var svo í ruglinu á meðan Belginn spilaði frábærlega. Vinningur til Evrópu!

20.05 Mickelson á geggjað innáhögg úr sandgryfju af 150 metra færi á 14. holu og nær í fugl. Kemst yfir gegn Garcia. Bandaríkin komin með vinning og eru yfir í sex.

20.00 Patrick Reed og Rory eiga báðir frábær högg inn á 18. flöt. Reed á tæplega tveggja metra pútt fyrir sigri og setur það niður! Maðurinn fagnar vel og innilega og þakkar Rory svo fyrir frábæran leik. Bandaríkin fjórum vinningum frá því að endurheimta Ryder-bikarinn.

19.53 Fyrsta leik lokið. Jordan Spieth neglir í vatnið og fær víti og allskonar rugl á 16. Svíinn hefur betur og tekur fyrsta vinning dagsins. Evrópa búin að minnka muninn í tvo vinninga.

19.48 Patrick Reed koxar svakalega á 17. flöt. Vippar langt yfir hana. Er stressið að fara með hann? Rory fær tækifæri til að tryggja Evrópu hálfan vinning á lokaholunni. og Fitzpatrick jafnar gegn Zach Johnson!

19.40 Staðan er mjög áhugaverð því Evrópa er að vinna fyrri helming hollanna en þetta mun allt saman ráðast á síðustu holunum því Bandaríkin eru að vinna fimm síðustu einvígin. En þetta getur allt breyst. Mickelson jafnar gegn Garcia!

19.36 Cabrera er hársbreidd frá því að fara holu í höggi á 13. holu! Tekst ekki en hann á öruggan fugl. Patrick Reed er kominn tveimur yfir gegn Rory þegar tvær holur eru eftir. Bandaríkin örugg með hálfan vinning þar.

19.29 Sergio Garcia tekur tvær holur í röð, tíundu og elleftu, og kemst yfir gegn Mickelson. Bandaríkin enn þá yfir í fimm síðustu leikjunum sem fóru af stað og þeim fyrsta þar sem Reed er enn þá yfir gegn Rory.

19.21 Bruce Koepka tekur sjöttu og sjöundu holu á móti Danny Willett og kemst yfir. Síðustu fimm leikir dagsins eru nú allir í eign Bandaríkjamanna. Heimamenn aftur yfir í sex einvígum.

J.B. Holmes lætur boltann falla eftir að taka víti.vísir/getty
19.15 Dustin Johnon og Chris Wood hafa verið að skiptast á holum en nú er Bandaríkjamaðurinn kominn yfir og heimamenn eru yfir í fimm.

19.12 Staðan núna 4-3 í vinningum eftir að Garcia jafnar gegn Mickelson. Fitzpatrick búinn að vinna eina holu til baka á Zach Johnon. Jafnt í fimm einvígum á þessari stundu.

19.07 Síðustu menn út fyrir Bandaríkin byrja mjög vel. Kuchar og Johnson báðir tveimur yfir og Snedeker er búinn að snúa sínu einvígi gegn Sullivan algjörlega við og taka fjórar í röð. Bandaríkin núna yfir í fimm en Everópa yfir í þremur.

18.55 Brandt Snedeker er búinn að taka þrjár holur eftir að lenda tveimur undir gegn Sullivan. Er núna einn upp eftir að taka áttunda holuna. Bandaríkin yfir í sex!

18.50 Matt Kuchar kemur yfir gegn Þjóðverjanum Martin Kaymer. Bandaríkin eru nú yfir í fimm viðureignum en Evrópa í fjórum. Þetta sveiflast til og frá. Verður spenna allt til loka.

18.42 Patrick Reed tekur tólftu holuna á móti Rory í því frábæra einvígi þar sem menn eru að spila tryllt golf. Bandaríkin yfir í fjórum. Þurfa fimm vinninga til að vinna.

18.30 Phil Mickelson tekur sjöundu holuna á móti Sergio Garcia og kemur Bandaríkjamönnum yfir í þriðju viðureigninni. Evrópa yfir í fjórum núna. Spenna í þessu.

18.24 Síðasta hollið er farið af stað í dag. Zach Johnson vinnur fyrstur holuna gegn Matt Fitzpatrick og lagar stöðuna aðeins gegn Evrópumönnunum. Evrópa yfir í fjórum núna.

Jordan Spieth slær á sjöttu braut.vísir/getty
18.10 Rickie Fowler lagar þetta aðeins fyrir Bandaríkin og Tiger Woods fylgist grannt með. Tekur sjöundu holuna gegn. Justin Rose. Stenson kemst svo yfir gegn Spieth og Moore tekur eina gegn Westwood og er yfir í þeirri viðureign. Evrópa áfram yfir í sex.

18.08 Masters-meistarann Danny Willett, nýliði í Ryder-bikarnum, er ekki lengi að þessu gegn Koepka. Hann tekur holu númer tvö og tekur forystuna. Evrópa yfir í SEX leikjum en Evrópa þarf sjö vinninga til að verja titilinn og vinna Ryder-bikarinn fjórða skiptið í röð.

18.00 Tvær góðar holur hjá Evrópu. Stenson tekur áttundu gegn Jordan Spieth og jafnar við hann og Tomas Pieters tekur sjöundu á móti J.B. Holmes og jafnar. Bandaríkin allt í einu yfir í einni viðureign en Evrópa í fjórum.

17.57 Og um leið og það er sagt tekur Chris Wood aðra holuna gegn Dustin Johnson og kemur Evrópu þar yfir.

17.55 Það eru svo miklar sveiflur í þessu. Svakalegt golf í gangi. Ryan Moore tekur fjórðu holuna gegn Lee Westwood og jafnar við hann. Evrópa var yfir í fimm áðan gegn einum en nú er Evrópa yfir í þremur og Bandaríkin þremur.

17.49 Jordan Spieth gerir frábærlega í að jafna sjöundu holuna á móti Henrik Stenson með frábæru pútti. Hann heldur forystunni og Stóri Phil Mickelson er kominn yfir gegn Garcia eftir að lenda undir á fyrstu holu. Bandaríkin yfir í þremur leikjum en þau þurfa fimm vinninga til að hirða sigurinn.

17.35 Evrópa getur ekki hætt að vinna holur núna. Andy Sullivan, nýliðinn, tekur fyrstu holuna gegn Brandt Snedeker og Evrópa er yfir í fimm leikjum!

17.28 Evrópa er komin í heldur betur góða stöðu. Rose, Cabrera, Garcia og Lee Westood allir yfir. Westwood komst yfir gegn Ryan Moore strax á fyrstu holu. Munum að Bandaríkin þurfa fimm vinninga til að sigra.

17.17 Skjótt skipast veður í lofti. Belginn Pieters tekur tvær í röð gegn Holmes og jafnar við Bandaríkjamanninn. Justin Rose er einum yfir og Sergio Garcia tekur fyrstu holuna á móti Mickelson. Aftur á móti er Spieth kominn aftur yfir gegn Stenson eftir að taka fimmtu holu.

Henrik Stenson grípur um höfuð sér á þriðju flöt.vísir/getty
17.12 Patrick Reed tekur sjöttu holuna í einvíginu gegn Rory McIlroy og jafnar við Norður-Írann. Allir leikir eru nú jafnir nema hjá J.B. Holmes og Thomas Pieters.

17.01 Hetjuviðureign dagsins er hafin. Þar mætast Phil Mickelson og Sergio Garcia. Bandaríkjamaðurinn er að keppa í sínum ellefta Ryder-bikar en Spánverjinn er í Rydernum í áttunda sinn. Þetta verður heldur betur áhugaverð viðureign.

16.53 Rickie Fowler var í svaka stuði á fyrsta teig og gaf Bubba Watson spaðafimmur og læti. En hann er undir eftir fyrstu holu. Justin Rose fær tvö pútt til að vinna holuna en lætur eitt duga. Holmes tekur aðra holu gegn Pieters og er tvo yfir.

16.52 Jimmy Walker og Rafa Cabrera eru farnir af stað. Þeir eru í fimmta holli af tólf. Spánverjinn neglir beint í brautarglompu en Walker er beint á braut.

16.47 J.B. Holmes byrjar vel og vinnur fyrstu holuna gegn nýliðanum Thomas Pieters frá Belgíu. Pieters er einn sex nýliða í evrópska liðinu en það er helmingur kylfinga sem meistarar síðustu þriggja Ryder-bikara senda til leiks.  Rory McIlroy vinnur aftur á móti þriðjuna holuna gegn Patrick Reed og er einum yfir.

16.31 Jordan Spieth púttar úr röffinu fyrir utan fyrstu flöt en setur niður geggjað pútt og kemst eina holu upp gegn Stenson. Rory McIlroy fær dauðafæri til að vinna aðra holu gegn Reed en setur tveggja metra pútt rétt framhjá.

16.18 Patrick Reed bjargar pari með fjögurra metra pútti sem var eins gott því Rory fór í sandgryfju en kemst  frábærlega upp úr henni og setur kúluna alveg við pinna fyrir öruggu pari. Henrik Stenson byrjar aftur á móti illa. Hann sllær teighöggið langt út fyrir braut upp að áhorfendapöllum. Spieth beint á braut.

16.10 Hinn sjóðheiti Reed byrjar daginn ekki vel. Neglir teighögginu út í skóg og þarf að komast framhjá tré ætli hann að nálgast holuna.

Svona er stemningin og útlitið á fyrsta teig.vísir/getty
16.08 Næstir út eru tveir risar í golfinu: Bandaríkjamaðurinn ungi Jordan Spieth og sigurvegari opna breska meistaramótsins í ár, Henrik Stenson. Stenson verið sjóðheitur á árinu en hann var einnig í baráttunni um Ólympíugullið. Spieth vann aftur á móti Stenson í fjórmenningi á föstudaginn ásamt Patrick Reed.

16.05 Rory McIlroy byrjar daginn á fallegu teighöggi. Beint á braut. Veislan er byrjuð!

15.55 Við minnum á að lokdagurinn er í beinni útsendingu á Golfstöðinni eins og allt mótið er búið að vera. Keppnin er búin að vera svakalega skemmtileg og spennandi. Þetta er eitthvað sem enginn golfáhugamaður má missa af.

15.45 Fyrstu menn út á völl eru Patrick Reed og Rory McIlroy. Reed er að spila sinn annan Ryder-bikar og þessi keppni virðist henta honum vel. Hann hefur í heildina spilað fjóra leiki á Ryder Cup og unnið þrjá þeirra. Rory McIlroy er aftur á móti fjórfaldur sigurvegari á risamótum og í þriðja sæti á heimslistanum.

15.30 Bandaríska liðið er í betri stöðu en það er með þriggja högga forskot og þarf að vinna fimm af tólf einstaklingsviðureignum dagsins til að endurheima Ryder-bikarinn sem Bandaríkin unnu síðast á Valhalla-vellinum í Kentucky fyrir átta árum síðan.get

15.30 Góðan daginn og verið velkomin í beina textalýsingu Vísis frá lokadegi Ryder-bikarsins sem fram fer á Hazeltine-vellinum í Minnesota í Bandaríkjunum. Það ræðst í kvöld hvort Evrópa vinni Ryderinn fjórða sinn í röð en það hefur evrópska liðinu aldrei tekist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×