Erlent

Bandaríkin senda herskip til Jemen

Samúel Karl Ólason skrifar
Theodore Roosvelt.
Theodore Roosvelt. Vísir/EPA
Flugmóðurskipið Theodore Roosevelt er nú á leið til Aden flóa og mun taka upp stöðu við strendur Jemen. Þar er skipunum ætlað að vera til staðar til að koma í veg fyrir vopnasendingar Írana til uppreisnarhópa í landinu.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í síðustu viku bann við vopnasölu til Húta. Bann var samþykkt með fjórtán atkvæðum gegn engu, en Rússland sat hjá.

Samkvæmt AP fréttaveitunni, hafa Bandaríkin fjölgað skipum í flóanum eftir að fregnir bárust af átta skipa lest frá Íran, en hún er talin bera vopn. Nú þegar eru níu herskip frá Bandaríkjunum í flóanum. Um borð í þeim skipum eru hópar manna sem geta farið um borð í önnur skip og leitað að vopnum.

Vestræn yfirvöld og yfirvöld Sádi-Arabíu segja að Hútar fái vopn sín frá Íran, en því hafa bæði Hútar og yfirvöld í Teheran neitað. Íran hefur þó veitt uppreisnarmönnunum pólitískan stuðning og veitt þeim birgðir. Sádar leiða nú bandalag ríkja sem gerir loftárásir gegn Hútum í Jemen. Þær loftárásir eru studdar af Bandaríkjunum sem veita Sádum stuðning í formi upplýsinga og gagnaöflunar.

Talsmaður Hvíta hússins sagði að Bandaríkin fordæmdu stuðning Íran við Húta. Hann sagði Bandaríkin búa yfir sönnun þess að Íranar væru að veita Hútum vopn og annarskonar stuðning.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×