Erlent

Bandaríkin og Kúba tilkynna um opnun sendiráða

Atli Ísleifsson skrifar
Raul Castro Kúbuforseti og Barack Obama Bandaríkjaforseti hittust á fundi í Panama í apríl síðastliðinn.
Raul Castro Kúbuforseti og Barack Obama Bandaríkjaforseti hittust á fundi í Panama í apríl síðastliðinn. Vísir/AFP
Bandaríkin og Kúba munu á morgun tilkynna um opnun sendiráða í höfuðborg hvors annars. Um er að ræða stórt skref í átt að því að bæta samskipti þjóðanna, sem hafa verið vægast sagt stirð undanfarna áratugi.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, og Raul Castro, forseti Kúbu, hittust á sögulegum fundi í Panama í apríl síðastliðnum með það fyrir augum að bæta stjórnmálasamband ríkjanna tveggja. Í desember á síðasta ári hafði verið tilkynnt að unnið skyldi að bættum samskiptum, en samkomulagið var ávöxtur átján mánaða leynilegra viðræðna sem fóru að stórum hluta fram í Kanada.

Samskipti Bandaríkjanna og Kúbu hafa verið mjög stirð frá því kommúnistar undir forystu Fídels Castró tóku völdin í landinu árið 1959 og hefur Kúba meðal annars sætt viðskiptabanni af hálfu Bandaríkjastjórnar frá árinu 1962.

Í kjölfar fundarins voru hinsvegar jákvæð teikn á lofti. Opnað var fyrir ferjusiglingar á milli landanna tveggja og Bandaríkin fjarlægðu Kúbu af lista sínum yfir þau lönd sem styðja alþjóðlega hryðjuverk.

Það var svo í dag sem BBC sagðist hafa heimildir fyrir því að Obama og John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, myndu greina frá opnun sendiráðanna á morgun.

Þjóðirnar tvær hafa frá árinu 1977 haldið úti nokkurs konar diplómatastarfsemi í höfuðborgum hvors annars, sem nýtur lagalegrar verndunar Svisslendinga. Ekki hefur hinsvegar verið um eiginleg sendiráð að ræða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×