Erlent

Bandaríkin og Kína fullgilda Parísarsamninginn um loftslagsmál

Atli Ísleifsson skrifar
Barack Obama Bandaríkjaforseti mætti ásamt öðrum til fundar leiðtoga G20-ríkjanna í kínversku borginni Hangzhou fyrr í dag.
Barack Obama Bandaríkjaforseti mætti ásamt öðrum til fundar leiðtoga G20-ríkjanna í kínversku borginni Hangzhou fyrr í dag. Vísir/AFP
Stjórnvöld í Bandaríkjunum og Kína, sem saman bera ábyrgð á um 40 prósent af losun gróðurhúsalofttegunda, hafa bæði fullgilt Parísarsamninginn um loftslagsmál.

Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði þegar hann mætti til fundar hjá leiðtogum G20-ríkjanna í kínversku borginni Hangzhou fyrr í dag, að sagan myndi leiða í ljós að dagurinn í dag hafi skipt sköpum í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Í frétt BBC kemur fram að ríki heims hafi í desember síðastliðinn komið sér saman um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til að koma í veg fyrir að meðalhiti hækki ekki um meira en tvær gráður.

Parísarsamningurinn mun fyrst taka gildi þegar 55 ríki hið minnsta, sem bera ábyrgð að minnsta kosti 55 prósent af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum, fullgildi samninginn. Tilkynningin í morgun er því stórt skref í þá átt að samningurinn taki gildi og er talinn auka þrýsting á önnur ríki.

Kínverska þingið tók ákvörðun um fullgildingu í morgun eftir vikulanga umræðu. Þá greindi Bandaríkjastjórn einnig frá því í morgun að Bandaríkin hefðu fullgilt samninginn.

Til þessa höfðu einungis 23 ríki fullgilt samninginn, sem standa fyrir einungis um eitt prósent af losun gróðurhúsalofttegunda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×